138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekkjur og ekklar eru skjólstæðingar Sjálfstæðisflokksins. Fólk á vinnualdri er skjólstæðingar Sjálfstæðisflokksins. Ungbörn eru skjólstæðingar Sjálfstæðisflokksins. Íslendingar almennt eru skjólstæðingar Sjálfstæðisflokksins.

Hvers vegna komum við ekki með fleiri tillögur um jöfnuð? Ég held að við höfum sýnt það bærilega í þessu nefndaráliti hvernig búa má til tekjuskattskerfi sem skapar jöfnuð, ef það er það sem fólk vill fá, en við erum aftur á móti ekki að leggja til þannig kerfi. Eins og ég sagði í andsvari fyrr í kvöld leggjum við áherslu á að velferðarnetið sé þétt ofið til að taka við þeim sem minna mega sín, verða undir, og við viljum líka að láglaunafólk hafi mannsæmandi kjör. Það viljum við.

Hvað varðar ójöfnuð er höggvið í sama knérunn. Það er alveg rétt að ójöfnuður óx á árabilinu frá 2001–2008, þegar maður tekur fjármagnstekjur með í reikninginn. En ef maður skoðar hreinar launatekjur var þróunin svipuð og í öðrum löndum. En ef hv. þingmanni líður betur með það er ójöfnuðurinn í tekjunum sennilega horfinn núna vegna þess að fjármagnstekjurnar eru horfnar og annað slíkt.

Hvað varðar skattleysismörk er það rangt að skattleysismörk hafi lækkað eitthvað gríðarlega. Þau lækkuðu á árabilinu 1989–1992 en eftir það hafa þau meira og minna staðið í stað á föstu verðlagi. Þetta er stóra lygin í þessari umræðu allri, að persónufrádráttur hafi lækkað. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvaðan það er komið.