138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:12]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst sú vinna sem hv. efnahags- og skattanefnd hefur unnið á undanförnum dögum sýna að þjóðkjörnir fulltrúar þjóðarinnar, við alþingismenn, eiga að setja mark sitt á þá skattapólitík sem er rekin hér í landi. Við gerum það með málefnalegri umræðu á vettvangi nefnda þingsins og það gerðum við í þessu tilviki.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann að öðru atriði hvað varðar þessa skattaframkvæmd: Setjum sem svo að það sem er umfram 20% af bókfærðu eigin fé fyrirtækja, þ.e. lögaðila, verði útborgun í arði, á þá að afgreiða helminginn af því sem er umfram þessi 20% sem arð og hinn helminginn sem laun til að koma í veg fyrir kannski það undanskot sem á sér stað í núverandi reiknuðu endurgjaldi á því kerfi sem þar líður? Við deilum báðir áhyggjum af fjárhag sveitarfélaganna og það er ljóst að ef af þessari breytingu verður mun fjárhagur sveitarfélaganna í landinu styrkjast til muna.