138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:13]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra umhyggju hv. þm. Magnúsar Orra Schrams fyrir tekjustofnum íslenskra sveitarfélaga. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður ætli að leggja það til með þessum skattafrumvörpum sem verið er að keyra í gegn að gjöld vegna tryggingagjaldsins hjá sveitarfélögunum muni hækka um 2 milljarða kr. á meðan við heyrum fréttir af því að sum sveitarfélög séu jafnvel á barmi gjaldþrots. Ég veit að hv. þingmaður getur ekki komið aftur upp í andsvar en ég hefði haldið miðað við stöðu sveitarfélaganna að ríkisstjórnin ætti ekki að leggja þessar álögur á sveitarfélögin með þessum hætti (Gripið fram í.) án samráðs við sveitarfélögin. (Gripið fram í.)

Varðandi þessa reglu (Gripið fram í.) finnst mér hún mjög vafasöm og ég hefði viljað reyna að halda í þetta reiknaða endurgjald og jafnvel ef þeir ætla að borga sér meira en 20% arð krefja þá jafnvel um að þeir reikni sér tvöfalt endurgjald til að svo megi verða. Það er ein hugmynd sem var velt upp á vettvangi nefndarinnar en (Forseti hringir.) — enn og aftur — það gafst eiginlega enginn tími til að ræða þessi mál (Forseti hringir.) af einhverju viti.