138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór víða í ræðu sinni og það er afskaplega margt sem maður getur gert athugasemdir við. En það var eitt sem hún nefndi, hún sagði að skattar á lægstu launin hefðu lækkað. Ég vil lesa úr umsögn Alþýðusambands Íslands, af því hún trúir mér sennilega ekki, með leyfi frú forseta:

„Benda má á að lágtekjufólk mun búa við þyngri skattbyrði af tekjuskatti á næsta ári, þrátt fyrir að tekið verði upp þrepaskattkerfi, en að óbreyttu skattkerfi. Slíkt er með öllu óásættanlegt.“

Við erum reyndar með töflu í okkar umsögn þar sem kemur skýrt fram hvernig skatturinn hækkar á lægstu launin, hækkar um 3.266 kr. að óbreyttum lögum. Það væri hægt að hafa óbreytt lög, frú forseti, ef Alþingi hefði borið gæfu til að samþykkja frumvarp sjálfstæðismanna um skattlagningu á séreignarsparnaðinn og þá hefðu allar skattbreytingar ríkisstjórnarinnar verið óþarfar.