138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:50]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt ef hv. þm. Pétur H. Blöndal telur að ég trúi honum ekki, ég held að yfirleitt fari hv. þingmaður með rétt mál þótt ég sé ekki alltaf sammála honum. En af því hann talar um óbreytt skattkerfi, þ.e. við mundum halda inni tengingu persónuafsláttarins við verðlagsþróun, vil ég spyrja á móti: Ef ekki yrði farin sú leið að taka lán í skatttekjum framtíðarinnar, sem hv. þingmaður talar fyrir, ef við strikum það út af borðinu, hvað mundi hann gera? Mér leikur forvitni á því. Mundi hann halda óbreyttum lögum? Mundi hann halda að það væri ábyrgt að fara í þær ríflegu skattalækkanir sem í því mundi felast á lágtekjuhópinn, sem væri vissulega jákvætt? Ég velti því fyrir mér hvaða leið hann mundi fara.