138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:54]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir talar um rannsóknir sem leiði líkur að hinu og þessu. Hins vegar er það deginum ljósara og þarf ekkert að leiða líkur að því að afla þarf tekna í ríkissjóð á næsta ári. Ég tel að það verði ekki gert öðruvísi en með því að hækka skatta að einhverju öðru leyti. Svo getur það náttúrlega verið villandi samanburður að horfa ekki t.d. á skattprósentu og hversu há eða lág hún er, af því hún hefur verið tiltölulega lág á Íslandi. Því er kannski ekki líku saman að jafna ef við tökum bara það hvernig Bandaríkjamenn brugðust við sinni stóru kreppu 1930, þá var t.d. miklu hærri tekjuskattur þar en hefur verið á Íslandi. Ég tel að þetta sé eitthvað sem þurfi (Gripið fram í.) að skoða, að það var afskaplega lág skattprósenta hér fyrir sem ég held að skipti lykilmáli í þessum efnum.