138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög athyglisvert svar. Nú er það svo að hægt hefði verið að fara aðrar leiðir í þessum skattahækkunum. Ef vinstri menn dreymdi um að hækka skatta, hvers vegna voru prósentutölurnar ekki einfaldlega hækkaðar í staðinn fyrir að fara þá leið að flækja allt skattkerfið eins og verið er að gera hér með tilheyrandi kostnaði?

Mig langar jafnframt að hv. þingmaður — hafi hv. þingmaður tíma til — fari aðeins yfir það með okkur hvernig það að ganga í Evrópusambandið á eftir að koma okkur til bjargar í þessu máli? Hvaða orsakasamhengi er þar á milli? Ég get einfaldlega ekki séð að það sé til staðar. Eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar að horfa þar til reynslu Spánverja eða Íra? Eða til hvaða reynslu eru þeir eiginlega að horfa? Ég sé þess ekki stað að þetta sé einhver lausn. Nú veit ég að hv. þingmaður sat ekki á sumarþinginu þar sem hv. samflokksmenn hennar komu upp hver af öðrum og sögðu að aðild að ESB væri eina lausnin fyrir okkur, en er það virkilega svo að ungir þingmenn, og þá á ég við hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur, hafi engar aðrar hugmyndir en að hækka skatta og ganga í Evrópusambandið, (Forseti hringir.) að það sé framtíðarsýnin fyrir Ísland?