138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:57]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það er aldeilis ekki svo að við höfum ekki aðrar hugmyndir en að hækka skatta og ganga í Evrópusambandið, eins og hv. þingmaður einfaldaði það svo ágætlega hér. Við sem styðjum núverandi ríkisstjórn getum sagt ykkur að það er verið að vinna mjög fjölþætt starf á mjög mörgum vígstöðvum.

Ég vil bara ítreka það varðandi skattkerfisbreytingarnar að við þurfum tekjur núna. Við þurfum að stoppa upp í fjárlagagat á næsta ári sem má telja að geti verið í kringum 160 milljarðar. Og hvað varðar aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru sem því mundi fylgja, er það vissulega svo að jafnvel þótt aðild að Evrópusambandinu kæmi til á morgun, mundi það ekki ná okkur upp úr þeim stað sem við erum strax eftir hádegi á morgun. (Forseti hringir.) Hins vegar tel ég að samvinna með öðrum Evrópuríkjum, upptaka gjaldmiðils sem virkar (Forseti hringir.) fyrir okkur til að draga úr sveiflum, kæmi í veg fyrir að við lentum í álíka hruni og við gerðum núna. (Forseti hringir.) Vilja þingmenn stjórnarinnar leggja áherslu á það að við lendum ekki í sömu aðstæðum og við gerðum árið 2008?