138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki laust við að mann setji hljóðan við þau lokaorð hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur hér á undan að þessar skattahækkanir væru hóflegar og þess vegna væri engin ástæða til að vera með neina leikræna tilburði af þessu tilefni. Þessu verð ég að vera algjörlega ósammála og ég tel að hv. þm. Helgi Hjörvar sé það líka. Við áttum hér orðastað í dag. Hv. þm. Helgi Hjörvar er formaður efnahags- og skattanefndar og hann lýsti því yfir þegar ég spurði hann í andsvari hversu nálægt þeim þolmörkum sem íslenska þjóðin hefði gagnvart skattahækkunum við værum komin að hann teldi að við værum komin ansi nálægt þeim, a.m.k. eins og ég skildi andsvar hans. Það er gríðarlegur skoðanaágreiningur á milli þessara tveggja samflokksmanna og það væri ágætt að fá á hreint hvað það er sem menn eiga við hér. Eru þetta hóflegar skattahækkanir að mati Samfylkingarinnar, eða eru þetta verulegar byrðar á heimilin í landinu og á landsbyggðina?

Frú forseti. Með því frumvarpi sem við ræðum er ríkisstjórnin að leggja til grundvallarbreytingar á íslensku skattkerfi. Ef þær ná óbreyttar fram að ganga er það mesta breyting sem orðið hefur á skattkerfinu í áratugi, það er ljóst. Það er stuttur tími til áramóta og verði þessar kerfisbreytingar að veruleika þarf að breyta kerfinu. Það kostar peninga og það kostar tíma. Það væri ágætt ef hv. formaður efnahags- og skattanefndar gæti komið í andsvör við mig og farið aðeins yfir það með mér hversu miklu þarf að kosta til til að breyta kerfunum hjá skattstjórum o.fl. til að þessar skattahækkanir komist í framkvæmd. Menn hafa sex virka daga til að gera þetta og það er spurning hvort það sé verið að keyra þetta allt saman á yfirvinnu. Það er aðeins tæpt á þessu í frumvarpinu en miklar efasemdir hafa komið fram um að þær kostnaðartölur sem þar greinir séu réttar og þá sérstaklega í nefndaráliti 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar þar sem segir, með leyfi frú forseta:

„Kostnaður skattgreiðenda við þessar breytingar verður verulegur og að margra áliti mjög vanmetinn í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis. Gera má ráð fyrir því að breytingarnar muni kosta um 200–300 millj. kr. en ekki gafst tími til að fara ítarlega ofan í forsendur og hvað sé raunhæft í þessum efnum vegna tímaskorts.“

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna málsmeðferðina í þessu máli, sagt að hér sé farið afar hratt af stað. Það er ekki einu sinni hugsað fyrir því hvaða kostnaður fellur til við þessar breytingar. Það væri ágætt ef hv. þm. Helgi Hjörvar gæti farið aðeins yfir þetta í þessum virðulega ræðustól Alþingis.

Hér ríkir vinstri stjórn, norræna velferðarstjórnin. Ég ímynda mér að kjósendur þeirra ágætu flokka sem skipa ríkisstjórnina hafi beðið í ofvæni eftir því að sjá hina norrænu velferð í framkvæmd. Þetta er það sem blasir við, eilífar skattahækkanir. Við erum búin að vera að tala um þessar skattahækkanir í þinginu í nokkra daga og það er eiginlega með hreinum ólíkindum að það sé talað af þvílíkri léttúð um þetta eins og var gert í ræðustóli áðan og sagt að þetta væru hóflegar skattahækkanir.

Það er eitt að hækka skatta og annað að kollvarpa því kerfi sem við byggjum á. Með þessum tillögum ríkisstjórnarflokkanna, frú forseti, er flækjustigið aukið verulega. Spurningin er: Hver er tilgangurinn með því? Hvers vegna er farin þessi leið? Það er stóra spurningin.

Í Morgunblaði dagsins er fjallað um að þessar skattbreytingar séu óþarfar. Með leyfi forseta ætla ég aðeins að vísa í þessa frétt. Hér er fjallað um að fyrirhugaðar breytingar stjórnvalda á skattkerfinu hafi „meðal annars verið gagnrýndar fyrir að flækja kerfið með þrepaskiptingu sem svo leiðir til ýmissa vandkvæða“. Síðan er vísað hérna í mynd sem sýnir fram á að það hafi verið „býsna einfalt að ná fram þeim tekjujöfnunaráhrifum sem skattbreytingum er ætlað að kalla fram í núverandi kerfi: Eingöngu hefði þurft að hækka tekjuskattsprósentuna upp í 43% og hækka persónuafsláttinn upp í 65 þúsund krónur“.

Ég hefði áhuga á að vita hvort ríkisstjórnarflokkarnir hafi eitthvað skoðað það að fara þessa leið eða hvort þeir velji að fara þrepaskiptinguna með þeim umtalsverða kostnaði sem í því felst. Var skoðað og borið saman hvort það væri hægt að fara einfaldari leiðina?

Ég er ekki draumóramaður um að hækka skatta og alls ekki að fara í þessa flækjuöflun sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að fara í. Það væri hægt að fara einfaldari leið til að ná inn sömu tekjum í ríkissjóð. Mig langar að vita hvort ríkisstjórnarflokkarnir hafi hugsað þetta eða hvort þeir hafi eingöngu ákveðið að flækja skattkerfið af því að nú ráða þeir. Nú ræð ég, sögðu þeir fyrir kosningar, nú má ég, nú get ég stjórnað. Svo kemur lausnin og það er einfaldlega flóknara skattkerfi og hækkaðir skattar í öllum mögulegum myndum sem hægt er að horfa á.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson lýsti því fjálglega fyrir okkur hvernig hann upplifði sitt síðasta skattfría bað í morgun. Það er bara ágæt líking sem er vert að taka vegna þess að nú er verið að setja skatta á heita vatnið. Það er einfaldlega nokkuð sem þeir íbúar sem byggja þetta land koma til með að finna fyrir, öll heimilin í landinu. Höfum við ekki í þinginu verið að fjalla um skuldsett heimili? Höfum við í þinginu ekki einmitt verið að fjalla um það hvaða áhrif allar þær efnahagsþrengingar sem þjóð okkar stendur í hafa haft á heimilin?

Síðan er það með hálfgerðum ólíkindum að ekki sé reynt að koma nokkuð til móts við þá hagsmuni sem t.d. Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á. Í því frumvarpi sem við hér ræðum er t.d. lagður til svokallaður auðlegðarskattur sem vinstri flokkarnir hafa fundið upp. Þetta fína orð, auðlegðarskattur, hljómar örugglega vel í eyrum sumra en þetta er náttúrlega ekkert annað en gamli eignarskatturinn afturgenginn. Það er nú einfaldlega þannig.

Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna við þetta mál er m.a. tekið fram að ekki eigi að greiða eignarskatt af lögheimili. Það er t.d. hugmynd sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa sett fram. Í umsögninni kemur fram, með leyfi forseta:

„Hagsmunasamtök heimilanna bentu á það í umsögn við bandorminn í sumar, að hugsanlega væri til önnur leið til að ná inn auknum tekjum fyrir ríkissjóð. Var bent á útfærslu á leið Sjálfstæðisflokksins um að nýta iðgjöld lífeyrissjóðanna.“

Þarna er athyglisverður punktur. Það er spurning hvort kannski ætti að skoða þessa leið frekar en þá sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið sér að fara.

Ég tala hér um heimilin vegna þess að mér finnst ríkisstjórnarflokkana skorta heildaryfirsýn yfir það verkefni og þá vegferð sem þau eru á. Ég hef áður farið yfir það í ræðum mínum við önnur lagafrumvörp er varða hækkun skatta og ég tel óþarft að fara yfir það öðru sinni.

Þegar það eru erfiðir og undarlegir tímar eins og við upplifum hér er mjög auðvelt fyrir skrýtnar og hættulegar hugmyndir að komast á kreik. Ýmislegt í þeim tillögum sem hér liggja fyrir er af því tagi og það er náttúrlega enn þá verra fyrir almenning og okkur þingmenn að átta okkur á hlutunum meðan það er sífellt verið að koma þeim í dulargervi, eins og verið er að gera með svokallaðan auðlegðarskatt sem er ekkert annað en eignarskatturinn endurrisinn og sem áður gekk jafnframt undir nafninu ekknaskatturinn. Þetta er nokkuð sem við þurfum að átta okkur vel á í þinginu. Þetta er bara bláköld staðreynd sem við horfum framan í.

Ég hef áhuga á því líka að vísa aðeins í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um þetta lagafrumvarp. Í þeirri umsögn er gagnrýnt að áhrif frumvarpsins á sveitarfélögin liggi ekki fyrir. Hér segir, með leyfi forseta:

„Sambandið gerir alvarlega athugasemd við að ítrekað eru lögð fram á Alþingi stjórnarfrumvörp sem hafa veruleg áhrif á fjármál sveitarfélaga án þess að áhrif þeirra á fjárhag sveitarfélaga hafi verið metin.“

Frú forseti. Þetta er ekki nýtt og þetta er ekki eingöngu eitthvað sem sveitarfélögin hafa kvartað yfir í tíð þessarar ríkisstjórnar. Engu að síður hefur verið undirritað samkomulag milli félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla gagnvart sveitarfélögum. Það er ljóst að á einhverjum tímapunkti verðum við að fara að standa við þetta samkomulag. Það er gríðarlega óþægilegt fyrir sveitarfélögin þegar þau eru hér, m.a. úr þessum ræðustól, sífellt skömmuð fyrir að eyða um efni fram, vera ekki með ábyrga hagstjórn o.s.frv. Í þeim ræðum eiga sveitarfélögin að vera hluti af hinu opinbera og þá líta ráðamenn á sveitarfélögin sem hluta af hinni opinberu hagstjórn en þegar á reynir, þegar fram koma einhverjar breytingar sem koma til með að hafa áhrif á fjármál sveitarfélaganna, er ekki farið í að kostnaðarmeta. Þetta er einfaldlega nokkuð sem við verðum að fara að breyta, frú forseti.

Í öðru lagi er í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga fjallað um þá staðreynd að í V. kafla frumvarpsins sé ráðgert að tryggingagjald hækki úr 2,21% í 3,81% til að mæta auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hér er kallað fram í þegar menn hafa minnst á þetta að sveitarfélögin verði undanþegin þessu. Það liggur hins vegar hvergi fyrir. Ég hef einfaldlega rekið mig á það áður í umræðu við hæstv. ríkisstjórnarflokka að ýmislegt er sagt en það stendur ekkert endilega á borði. Það væri ágætt ef við fengjum upplýst hér hvenær til standi að koma því niður á blað og koma því einhvers staðar væntanlega í undanþáguákvæðið við þessi lög að sveitarfélögin komi ekki til með að greiða þetta. Hvernig á að fara í þá framkvæmd? Það væri ágætt að fá jafnframt svör við því og ég vonast til að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi hugsanlega svör við því eða þá hæstv. fjármálaráðherra sem ég hrósa nú fyrir að vera mættur í salinn á þessu laugardagssíðkvöldi.

Í þriðja lagi fjallar Samband íslenskra sveitarfélaga um það hvort hugsanlega séu aðrar leiðir færar til að auka tekjur ríkisins en þær að stórhækka álögur á almenning og fyrirtæki. Það vísar sérstaklega í frumvarp sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram á þingi um að skattleggja séreignarsparnaðinn.

Í þessum umsögnum kemur ýmislegt forvitnilegt fram, ekki síst það að menn eru virkilega af alvöru að skoða þá leið að fara í þessa skattlagningu á séreignarlífeyrissjóðunum. Þess vegna spyr ég enn og aftur: Hvers vegna hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki skoðað hana af meiri alvöru? Ég hef haldið því fram að það sé ekki vegna þess að viljann skorti, a.m.k. hafa nokkrir hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna lýst yfir fullum vilja til að skoða þessa leið af fullri alvöru, en eina útskýringin sem ég sé á því að svo sé ekki — vegna þess að við erum í þannig ástandi að við þurfum virkilega á því að halda að skoða þessa leið af alvöru — er sú að þessi hugmynd kemur frá sjálfstæðismönnum. Það er þá miður vegna þess að þjóðin bíður eftir því að við á þingi hlustum hvert á annað og tökum mið af þeim hugmyndum sem allir flokkar leggja hér fram. Við eigum hér ekki við eitthvert venjulegt ástand, við eigum hérna við það ástand að bankarnir okkar hrundu. Við lentum í harðri alheimskreppu og fórum dýpst niður af öllum. Þess vegna er ábyrgðarhluti hjá okkur sem hér stöndum og hér störfum að vinna saman að því að leita lausna. Ég er ekki enn þá búin að gefa upp vonina, frú forseti, um að þau vinnubrögð verði tekin upp.

Frú forseti. Hér komu fram merkilegar athugasemdir í umsögn skattstjórans á Suðurlandi, Steinþórs Haraldssonar, sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson fór að miklu leyti yfir en ég vil þó bæta við að í umsögn hans er fjallað um þrepaskiptan tekjuskatt og hækkun persónuafsláttar. Þar dregur skattstjórinn ályktun, með leyfi frú forseta:

„Tel ég að gjalda verði varhuga við þeim breytingum sem hér eru boðaðar“ og á þar við þrepaskiptan tekjuskatt og hækkun persónuafsláttar. Ég tel að ýmsir aðilar og margir umsagnaraðilar hafi haft miklar skoðanir á því hvaða leiðir væri verið að fara og hafa sérstaklega áhyggjur af því að nú sé verið að auka flækjustigið og það standi í rauninni upp úr.

Frú forseti. Mig langar að vísa líka til umfjöllunar sem kom fram í athugasemdum frá Skattvís þar sem Ásmundur G. Vilhjálmsson lögmaður er í fyrirsvari. Í umsögn Skattvíss kemur fram að ríkið megi aldrei komast upp með að hagnast á ranglega álögðum sköttum. Þarna er vakin athygli á galla sem umsagnaraðilinn telur vera á 21. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um að ríkisskattstjóra sé heimilt að taka til greina beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðunum skattstofna, þ.e. skattálagningu, þó lengst sex tekjuár aftur í tímann. Ég tel rétt að þetta ákvæði verði skoðað og þessar athugasemdir teknar alvarlega vegna þess að þarna fjallar um málið aðili sem hefur mikla reynslu af því að vinna í skattamálunum. Ég tel að fleiri atriði séu í þessum fínu umsögnum sem koma við þessi mál þrátt fyrir að veittur væri lítill frestur til umsagnar. Þetta er ekki atriði sem hægt er að horfa fram hjá.

Frú forseti. Þeir sem stjórna landinu á hverjum tíma hafa væntanlega einhverja hugmyndafræði sem þeir vinna eftir. Þegar menn fara í viðamiklar breytingar á því skattumhverfi sem ríkir hjá þjóðinni hlýtur það að vera útpælt og úthugsað. Nú hefur ríkisstjórnin haft það verkefni á borði sínu að finna lausnir til að leysa efnahagsvanda þessarar þjóðar. Þeir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn hafa setið í ríkisstjórn síðan í febrúar. Þær einu lausnir sem komið hafa fram til þess að taka á ríkisfjármálunum snúast um að hækka skatta. Þær snúast allar um að hækka skatta. Ýmsir hagfræðingar og ýmsar rannsóknir á þeim kerfum sem hafa orðið fyrir miklum búsifjum þar sem efnahagslægð hefur gengið yfir og miklar efnahagshamfarir hafa dunið yfir benda til þess að ef farið er í að hækka skatta um of er hættan við þá aðferðafræði sú að kreppan lengist og dýpki. Ég hef áhyggjur af því að við göngum því miður of langt og séum þess vegna á þeirri vegferð sem reynslan á að kenna okkur að sé ekki rétt. Af þessu hef ég miklar áhyggjur.

Þess vegna hvet ég ríkisstjórnarflokkana enn og aftur til þess að skoða þær hugmyndir sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram varðandi efnahagsmálin, þá sérstaklega um skattlagningu séreignarlífeyrissparnaðarins, vegna þess að með því verður komist hjá því að hækka álögur á heimilin í landinu á þann hátt að þau lendi í enn meiri vandræðum en þau eru nú þegar í. Ég tel að á þinginu, sérstaklega á þinginu nú í haust, hafi þingmenn allra flokka lýst því yfir að þeir hafi miklar áhyggjur af skuldavanda heimilanna. Við höfum m.a. afgreitt í gegnum þingið á hraðferð sérstaka löggjöf til að reyna að koma til móts við skuldsett heimili. Þess vegna verður maður að lýsa yfir áhyggjum af því þegar maður sér þess hvergi stað í skattlagningaráformum ríkisstjórnarflokkanna að það sé verið að reyna að hlífa heimilum landsins. Þarna virðist mér sem skorti á einhvers konar heildaryfirsýn yfir það verkefni sem við stöndum hér frammi fyrir.

Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum með það að það séu engar aðrar hugmyndir til að leysa þennan vanda — nema ef vera skyldi sú sem kom fram í máli hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur áðan, að ganga í Evrópusambandið. Heilt sumarþing fór að mestu í það, í sumar, að ræða um hvort eina leiðin til að komast upp úr þessu og komast út úr þessu væri ekki að ganga í Evrópusambandið. Um það get ég einfaldlega ekki verið sammála. Ef við horfum á reynslu þeirra þjóða sem þar eru inni, t.d. Spánar eða Írlands, get ég einfaldlega ekki séð hvernig hv. þingmenn sem eru flestallir mjög vel skynsamir geti komist að þeirri niðurstöðu og sett eitthvert samasemmerki á milli þess að leysa vandann sem við erum í hér í efnahagsmálum og þess að ganga í Evrópusambandið. Ég bara get ekki skilið hvernig fólk sér eitthvert samhengi þar á milli.

Menn hafa jú vísað í að það væri svo gott að fá að taka upp evruna og að það mundi vissulega leysa vandann. Ef ég gæti hugsanlega einhvern tímann verið sammála um að evran mundi leysa einhver vandamál hér er staðreyndin einfaldlega sú að við uppfyllum ekki nein skilyrði til að taka hér upp evru. Við gerum það ekki. Þess vegna er í besta falli barnalegt og í versta falli blekkingarleikur sem er verið að reyna að leiða þjóðina í að halda því fram að með því að ganga í Evrópusambandið leysum við efnahagsvanda okkar þar sem við fáum að taka upp evruna. Þetta er einfaldlega rangt og blekking og ég vona að skýringin sé einfaldlega sú að þarna sé einhver misskilningur á ferðinni. Það hlýtur að vera, frú forseti, vegna þess að ég hef meiri trú á þingmönnum þjóðarinnar en svo að þeir haldi að einhver utanaðkomandi aðili komi til með að leysa vandamál okkar. Það er ekki þannig, frú forseti, okkar vandamál leysum við sjálf. Og það gerum við með því að byggja á þeim traustu stoðum sem við eigum enn hér á þessu landi. Það komum við til með að gera og það væri miklu betra fyrir íslensku þjóðina ef við mundum hlusta meira hvert á annað, við sem hér störfum (Forseti hringir.) á þinginu, og reyna að leita sameiginlegra lausna.