138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var sérkennilega skemmtilegt andsvar.

Nú er það svo að ég hjó hvorki eftir einu né neinu sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði hér á göngunum. Ég var hér í andsvari við hv. þingmann til að spyrja hann að því hvenær og hvort hann teldi okkur vera komin að þolmörkum varðandi skattahækkanir. Það er hægur leikur að fletta því upp í Þingtíðindum hver svör hans voru, þannig að enginn misskilningur sé á ferðinni. Ef ég hef misskilið orð hans, sem ég taldi mig nú heyra ágætlega, get ég einfaldlega komið seinna upp og beðist afsökunar á því, en ég minnist þess ekki að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi verið á þeirri línu að þær skattahækkanir og sú skattahækkunarstefna sem ríkisstjórnarflokkarnir hér eru í séu hóflegir skattar.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram þessa hugmynd um skattlagningu séreignarlífeyrissparnaðar, vegna þess að nú eru sérstakir tímar og við teljum að á slíkum tímum sé ekki rétta leiðin að ganga þannig að heimilum landsins, fjölskyldum og fyrirtækjum sem hér er reynt að reka, að þau séu skattpínd út í hið óendanlega líkt og skattahækkanastefna ríkisstjórnarflokkanna gerir ráð fyrir. Þess vegna sé rétt að fara þessa leið. Ég vonast til að þeir hv. þingmenn sem segjast í orði vera hrifnir af þessari hugmynd, en á borði alls ekki og gera ekki neitt með hana, fari að horfa á þetta af einhverri alvöru, vegna þess að það eru bara sex virkir dagar fram að áramótum, að því er einhverjum hv. þingmanni taldist til hér í morgun, og við erum að tapa tímanum. Ekki er hægt að horfa á þessar skattahækkanir og svo skattlagningu séreignarlífeyrissparnaðarins sem ólíka hluti. Það verður að horfa á stöðuna eins og hún er í dag í heild sinni, hvaða leið við ætlum að fara héðan. Ef heimilin verða skattlögð þannig að þau lendi í enn meiri vanda en þau eru í í dag, er ekkert víst að sú leið sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til dugi til, því miður. (Forseti hringir.) Ég tel því miður að við séum í þessari stöðu.