138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:30]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að við erum sammála um að sú ríkisstjórn sem starfar nú á Íslandi stendur frammi fyrir gríðarlega erfiðu verkefni og það er nokkuð sem við þurfum alltaf að hafa í huga í þeim erfiðu aðgerðum sem nú þarf að fara út í, ekki það að einhver hafi sérstaklega gaman af því.

Ég bið hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur hér með afsökunar á því ef ég hef eitthvað rangtúlkað orð hennar um það sem Helgi Hjörvar sagði við hana á leið minni á salernið úr mjög langri andsvarahrinu.

(Forseti (ÁRJ): Helgi Hjörvar, hv. þingmaður.)

Hv. þm. Helgi Hjörvar, afsakið, frú forseti. Hins vegar held ég enn þá að ég geti sagt það að hann er sammála mér um að í ljósi þessara gríðarlega erfiðu aðstæðna sem við erum nú í sé þetta hófleg skattlagning. Við göngum ekki nær fólki en við teljum nauðsynlegt og það sem við gerum er að við göngum í tekjur þeirra sem hafa meira, og minna í tekjur þeirra sem hafa minna.

Svo vil ég bara tala aðeins betur um það sem ég kom inn á í lok fyrra andsvars, það er vissulega mikilvægt að dýpka ekki kreppuna. Það er hugmyndafræði sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fylgir að því leyti að hart verður tekið á því í ríkisfjármálunum núna. Ég ítreka að það er ekki ánægjulegt verkefni að skera niður og hækka skatta á sama tíma, en við gerum það í ljósi þessi að við teljum það nauðsynlegt til að leggja ekki á enn þá meiri og hærri afborganir af lánum og hærri vexti sem nú þegar ganga frekar nærri því að sliga ríkissjóð, að mínu mati.