138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek afsökunarbeiðni hv. þingmanns, ekki að þetta sé stórmál.

Hv. þingmaður kom inn á það í andsvari sínu áðan að þingmaðurinn telur að leið Sjálfstæðisflokksins sé lán hjá framtíðinni. Það er algjör misskilningur. Ég hvet hv. þingmann einfaldlega til að kynna sér tillögu okkar betur vegna þess að þetta er algjör misskilningur. Ríkisstjórnin, sama hvaða flokkar sem mynda hana, stendur frammi fyrir gríðarlega erfiðum verkefnum. Ég hef sagt það margoft í þessum ræðustól að það er auðveldara um að tala en í að komast að stjórna landinu núna. Menn verða hins vegar að hafa einhverja heildarsýn, og einhverja heildaryfirsýn yfir það hvernig eigi að ná tökum á vandanum. Ég verð að segja að ég er ekki sammála túlkun hv. þingmanns á því að ríkisstjórnin ráði vel við það verkefni, því miður, vegna þess að það er einmitt ekki tekið hart á ríkisrekstrinum. Ég get ekki séð það.

Við fáum fjárlögin inn til 3. umr. á morgun — nei, á mánudaginn, nú er maður orðinn svo vanur því að vera hérna að maður vill helst vera hérna á sunnudögum líka — en milli 1. og 2. umr. jukust útgjöld ríkisins um 14,4 milljarða kr., minnir mig, þannig að ég get ekki séð (Gripið fram í.) að það sé rétt að ríkisstjórnarflokkarnir taki hart á ríkisfjármálunum, því miður, enda hafa fulltrúar okkar í fjárlaganefnd lagt til enn frekari niðurskurð í ríkisrekstrinum upp á 8 milljarða kr. og jafnframt að fara þessa leið sem við höfum tekist á um í þessum ræðustól, að skattleggja séreignarlífeyrissparnað landsmanna til að hindra það að við dýpkum kreppuna enn frekar með því að fara í allt of miklar skattahækkanir sem ganga of nálægt heimilunum (Forseti hringir.) í landinu.