138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir málefnalega ræðu, enda er það hennar von og vísa að vera málefnaleg. Hitt er annað mál að við hv. þingmaður erum mjög ósammála um marga hluti. Ég vil hér ræða tvö hjartans mál, annað er hjartans mál hv. þingmanns og flokks hennar, skattlagning á inngreiðslur í séreignarsparnað sem var á allan lífeyrissparnað í landinu en hefur nú útvatnast í þessa hugmynd. Í síðara andsvari mínu mun ég svo koma inn á mitt hjartans mál sem er upptaka evru. Af því að ég vitnaði í andsvari við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson fyrr í kvöld til orða Marks Flanagans, fulltrúa AGS, þar sem hann segir að þessi tillaga minnki skatttekjur í framtíðinni, fegri tölur tímabundið og fresti nauðsynlegum aðgerðum til að leiðrétta halla ríkissjóðs vil ég halda því til haga að sá þingmaður sem hér stendur hefur aldrei verið jákvæð í garð þessarar hugmyndar enda tel ég hana feigðarflan og bera vitni um skammtímahugsun. Ég spyr því hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kannski svolítið svipaðrar spurningar og ég spurði hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson fyrr í kvöld: Telur hún að orð Marks Flanagans séu ekki marktæk, að hann hafi ekkert vit á málum? Ég minni á að flokkur minn og flokkur hv. þingmanns stóðu saman að því að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fá samþykkta efnahagsáætlun. (Gripið fram í.)