138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Icesave er það eins og með aðrar skuldir vegna lána, (Gripið fram í.) það eru skuldir á grundvelli nauðungarsamninga, (Gripið fram í.) vegna skuldbindinga sem Íslendingar þurfa að standa við. Afstaða mín byggir á að ég tel okkur fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Varðandi lán í framtíðarskatttekjum álfyrirtækjanna játa ég fúslega að ég hef miklar efasemdir um þá leið, enda eru í stjórnarmeirihlutanum 34 þingmenn og það væri merkilegt ef þeir væru allir (Gripið fram í.) algerlega sammála um alla hluti. (IllG: Það er mesta furða ef þeir eru sammála.)

Úr því að við erum að tala um leið sjálfstæðismanna um skattlagningu á innstreymi séreignarlífeyrissparnaðar finnst mér hún dæmi um skammtímahugsunarhátt og lýsa því af hverju hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir skilur ekki hagsmuni Íslendinga gagnvart því að taka upp evru. Evran verður ekki tekin upp á einum degi, það er ljóst. Fyrst þurfum við að fá samning, síðan þarf þjóðin að samþykkja samninginn og loks förum við inn í það ferli að geta tekið upp evruna. Til lengri tíma litið vinnur evran hins vegar með hagsmunum Íslands. Þess vegna vilja Samtök atvinnulífsins, þar með Samtök iðnaðarins, allir nema LÍÚ út frá sérhagsmunum sínum, taka upp evruna. Það er til þess að fyrirtækin í landinu búi við stöðugleika í efnahagsmálum, geti gert áætlanir og verið í eðlilegri og heilbrigðri samkeppni í eðlilegu rekstrarumhverfi. Evran er til hagsbóta fyrir íslensk heimili, sem og fyrirtæki, því að hún mun auka líkurnar á stöðugleika. En það mun líka krefjast (Forseti hringir.) agaðrar hagstjórnar og þá vona ég að Samfylkingin verði hér við völd, en ekki Sjálfstæðisflokkurinn með skammtímahugsun sína. (Gripið fram í.)