138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er þetta neyðarráð og það er ekki með glöðu geði sem ég geri þetta. Hins vegar er þetta gert á þann máta að það hvorki snertir sjóðfélagann, lífeyrissjóðina sjálfa né yfirleitt nokkurn aðila. Þetta er gert með því að sjóðurinn gefur út skuldabréf sem eru framseljanleg og ríki og sveitarfélög geta selt. Þannig er myndaður meira að segja mjög spennandi markaður með nýja tegund af skuldabréfum þar sem eru mjög sterkir skuldarar, eins og Lífeyrissjóður verslunarmanna o.s.frv. Ég tel að þessi lausn sé nokkuð þokkaleg til þess að ráða við þá mjög erfiðu stöðu sem við stöndum í og miklu betri en að fara að skattleggja fyrirtæki, sem eru kannski alveg á nippinu, með tryggingagjaldi eða fara að skattleggja áhættufé sem er laskað og varla til.

Og talandi um nýsköpun, við vorum að samþykkja frumvarp um nýsköpun. Ég er nærri viss um það, frú forseti, að þetta verður tómt mengi. Hver á að fara að kaupa hlutabréf núna? Traustið er núll. Við erum að lesa sögur af því að einhverjir menn holuðu fyrirtækin að innan á kostnað litlu hluthafanna. Halda menn virkilega að einhver fari að kaupa hlutabréf núna án þess að eitthvað mikið sé gert til að laga traustið?

Auðvitað erum við að skattleggja til framtíðar en ég held að þetta sé ein besta fjárfestingin sem við getum gert, vegna þess að ef okkur tekst að bjarga einu fyrirtæki og þeirri þekkingu og öllu því sem þar er inni og öllu starfsfólkinu sem verður atvinnulaust, er það vel þess virði. Það er nefnilega heilmikill skaði fólginn í því að skattleggja sig út úr kreppunni með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerir hér.