138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg óþarfi að tala þessar ágætu hugmyndir sjálfstæðismanna út af borðinu með því að segja að þetta sé skattlagning sem komi ekki við nokkurn mann, hvorki nú né síðar, svona eins og kanína úr hatti. Þannig er þetta náttúrlega ekki. Við erum að tala um alvörufjármuni, alvöruskattlagningu sem á að taka úr lífeyrissjóðunum. Það er líka nokkuð til að hyggja að þegar hv. þingmaður segir að það sé ekki ráð fyrir ríkissjóð eða sveitarsjóði að seilast ofan í vasa almennings eða hirslur fyrirtækja eftir fjármunum. En hvernig ætlum við að borga fyrir heilbrigðisþjónustuna, fyrir skólana, fyrir velferðarþjónustuna að öðru leyti nema ná einhvers staðar í fjármagn til að standa straum af kostnaði við þessa þjónustu? Við veljum leið almennrar skattlagningar sem dreifir byrðunum í stað þess að skattleggja hvern og einn með notendagjöldum, skólagjöldum eða sjúklingagjöldum.

Síðan að neyslustýringu. Það er alveg rétt, við skulum fara varlega í alla neyslustýringu en neyslunni er stýrt með margvíslegum hætti og það er ekki aðeins ríkisvaldið sem gerir það með ákvörðunum í sköttum. Ef hv. þingmaður væri forstjóri í framleiðslufyrirtæki stæði hann m.a. frammi fyrir spurningunni um verðlagið á vörunni og þjónustunni sem hann er að koma á framfæri. Hann reynir að haga verðlagningunni þannig að neyslan verði sem mest. Er það ekki neyslustýring? Að sjálfsögðu er það neyslustýring. Hvað með auglýsingar? Eru þær ekki tilraun til að hafa áhrif á neyslustýringuna? Er það bara bannað fyrir Lýðheilsustöð að hvetja til heilnæmrar fæðu og heilnæmra og hollra lífshátta? Er það bara bannað? Er það bara hitt sem má auglýsa (Forseti hringir.) á markaði og hafa þannig áhrif á neyslu okkar?