138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það ekki svo að ég hafi fundið upp einkahlutafélög. Það er reglugerð frá Evrópusambandinu, held ég sé rétt, og mikið notað. Það varð hins vegar mikill vöxtur í því þegar menn uppgötvuðu að það gat verið ódýrara að borga fyrst skatt af hagnaði fyrirtækisins upp á 15% og borga sér síðan út arð með 10% skatti. Þá treystu menn á að skattstjórinn segði að menn ættu að reikna sér þau laun sem þeir hefðu hjá óskyldum aðila. Það hefur algjörlega brugðist. Menn reiknuðu sér mjög lág laun, sumir hverjir. Ég sá vissulega þarna ákveðið gat í kerfinu. Það sem menn hefðu getað gert var náttúrlega að lækka bara skatt á einstaklinga enn meira og sjá hvort skattstofninn mundi ekki blása út enn meira og gefa ríkissjóði enn meiri tekjur.

Ég lagði líka einu sinni fram frumvarp um flatan tekjuskatt upp á 20% án nokkurra afslátta, enginn persónuafsláttur og enginn sjómannaafsláttur og ekki neitt. Þetta yrði bara nánast eins og virðisaukaskatturinn, launagreiðandi borgaði bara 80% af laununum út og svo væri ekkert framtal vegna þess að það er launagreiðandinn sem sér um hlutina, hann sér um að skila þessum 20% nákvæmlega eins og í virðisaukaskattinum. Svona hugsun hefði leyst þetta mál því að þá er þetta orðið jafngilt. Það sem ruglar dæmið er nefnilega persónuafslátturinn og þau kerfi sem við gerum til að halda utan um lágtekjufólkið, sem sumir trúa að sé persónueinkenni en ég trúi að allir geti hækkað í launum. Auðvitað getur verið að skattkerfið búi til ákveðin tekjumunstur sem væru ekki til ef skattkerfið væri ekki uppbyggt eins og það er.