138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að sönnu fann hv. þingmaður ekki upp einkahlutafélagið en það stappar nærri því að hann hafi fundið upp fjármagnstekjuskattinn, eins og hann var hér praktíseraður, og skattprósentur fyrirtækja sem (Gripið fram í.) voru þær skattareglur sem leiddu til þess að þúsundir launamanna fluttu sig yfir í einkahlutafélög vegna þess að þar varð til leið fyrir þá til þess að lækka skattprósentu sína. Það fannst Sjálfstæðisflokknum og hv. þingmanni allt í lagi sem aukið flækjustig í skattkerfinu, að þúsundir og aftur þúsundir manna breyttust úr því að vera einfaldir launamenn yfir í það að skila rekstraruppgjörum og þannig flóknum skattframtölum. Það hefur alltaf legið fyrir að það er fullkomlega útilokað fyrir skattyfirvöld að fylgja því flækjustigi eftir með því að fara ofan í rekstraruppgjör þúsunda og aftur þúsunda launamanna til að kanna hvort þeir reikni sér rétt endurgjald í hverju og einu tilfelli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Þess vegna er ósköp einfalt að hér þarf að samþykkja einfaldar og almennar reglur til að vinda ofan af þessu og auðvitað líka að breyta skattprósentunum sem jafnframt er verið að gera hér þannig að jafnræði aukist með þeim sem taka tekjur sínar í gegnum einkahlutafélög og milli launamanna hins vegar þannig að ekki sé þennan ávinning að sækja í þetta flækjustig. Ég veit hins vegar að þetta var auðvitað bara gert vegna þess að þingmaðurinn hafði sannfæringu fyrir því. Ég vek athygli á því að sannfæring hv. þingmanns er að það sé allt í lagi að flækja skattkerfið gríðarlega og alla skattframkvæmd í landinu ef það bara þjónar þeim markmiðum sem hv. þingmaður vinnur að. Það virðist ekki mega auka neitt flækjustigið í tekjuskattskerfinu til að auka jöfnuðinn í því og láta þá sem hafa hærri tekjur borga meiri skatta.