138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þannig kann að hátta til að einhverjir þeirra sem horfðu á þessa útsendingu séu enn með svarthvít sjónvarpstæki og ég líti því út fyrir að vera með ljóst hár en þeir sem hafa littæki sjá auðvitað að ég er rauðhærður, af því að hv. þingmaður nefndi það.

Ég verð að segja eins og er að mér hefur fundist margt af því sem hv. þingmaður hefur sagt hér um efnahagsmál ágætt og legg við hlustirnar þegar hv. þingmaður talar. En það á ekki að hafa farið fram hjá hv. þingmanni að þeir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem flytja þetta mál um séreignarsjóðina gera sér alveg fyllilega grein fyrir því að þeir peningar sem við notum í dag verða ekki notaðir síðar, að sjálfsögðu ekki. Það sem menn eru að gera og við erum að horfa á er annars vegar sú þörf sem uppi er núna og sá mikli vandi og sú mikla hætta á að kreppan sem nú stendur yfir verði hin mikla kreppa og geti orðið Íslendingum alveg óskaplega þungbær og valdið gríðarlegum fólksflutningum og miklum búsifjum og miklum mannlegum hörmungum, þ.e. annars vegar að vinna sig út úr því og hins vegar hvað við getum tekið mikið af þeim peningum sem hafa verið lagðir til hliðar til framtíðar. Og þá vill svo til, frú forseti, að við höfum búið til lífeyrissjóðskerfi sem er miklu stærra en lífeyrissjóðskerfi nær allra annarra landa sem við berum okkur saman við innan OECD. Það að við tökum þá peninga sem við höfum lagt til hliðar og eigum í séreignarsjóðum, ekki í lífeyrissjóðskerfinu öllu samanlögðu heldur í séreignarsjóðunum sem er einungis hluti af lífeyrissjóðskerfinu, og segjum: Vegna þeirrar neyðaraðstöðu sem er uppi núna í íslenska hagkerfinu, vegna þess hversu hættulegt það er — og allar fræðikenningar munu benda hv. þingmönnum á það og ég veit að þingmaðurinn er vel lesin í þessum fræðum — við þær aðstæður sem nú eru þar sem við erum að draga saman ríkisútgjöldin er óskynsamlegt að hækka skattana og það gerir það enginn nema í nauðir reki, með öðrum orðum að hvergi séu neinir aðrir peningar sem hægt er að nota, ekki sé hægt að ná í neina aðra peninga. (Forseti hringir.) Það er þannig með mörg ríki að þau hafa enga möguleika, en samt sem áður ætla mörg þeirra ætla sér að reyna að plata sig svona út úr vandanum, frú forseti.