138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:15]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þykist vita að þegar hv. þingmaður segir að við eigum ekki að reyna að skattleggja okkur út úr kreppu, samdrætti, þá sé hann að hugsa til alllangs tíma. Við erum hins vegar að ræða hér úrræði til skamms tíma, næstu tólf mánaða, fjárlög næsta árs.

Hvernig lítur hv. þingmaður þá á fjárlagahallann? Hefur hann ekki áhyggjur af því að fjárlagahallinn verði okkur ýkja dýr? Við gerum þegar ráð fyrir 100 milljörðum í greiðslur fyrir vexti af lánum og þetta mundi væntanlega verða ávísun á aukna skuldsetningu á komandi ári. Hvaða augum lítur hv. þingmaður á þennan vanda?

Síðan er hitt, ég þykist vita að hv. þingmaður vilji hafa hér gott heilbrigðiskerfi og góða skóla. Hann vill hins vegar ekki afla tekna til að fjármagna þessa skóla og ganga jafnvel lengra í niðurskurði. Hver er afstaða hv. þingmanns til notendagjalda, til sjúklingaskatta og skólagjalda í grunnskólum, í framhaldsskólum? Hver er afstaða þingmannsins til þessara þátta?