138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:44]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég staldraði aðeins við þegar hún fór að ræða um það skattkerfi sem var við lýði. Ég veit ekki betur en að það skattkerfi sem var við lýði hafi verið að hruni komið strax árið 2005 og í raun og veru þurfti þenslu til þess að halda tekjunum án þess að halli yrði á fjárlögum, þ.e. tekjustofnarnir þurftu þenslu til þess að skila þeim tekjum sem þurfti í ríkissjóð.

Sjálfstæðismönnum er hér tíðrætt um svokallaða einsskiptisaðgerð, að fara í séreignarsparnaðinn. Án þess að ég hafi nokkurn tíma kastað þeirri hugmynd fyrir borð finnst mér nú fullvel í lagt að selja allt fjölskyldusilfrið fyrir 70 milljarða króna og freista þess að taka á þeirri aðlögunarþörf sem nauðsynleg er. Við stöndum frammi fyrir 180 milljarða halla á ríkissjóði, við erum að greiða 100 milljarða kr. í vaxtakostnað. Ætlum við ekki að auka tekjur ríkissjóðs og taka á útgjöldum ríkissjóðs með raunhæfum hætti? Ætlum við að fresta því í eitt ár í viðbót, selja fjölskyldusilfrið, eða ætlum við í raun og veru að taka á vandamálinu um að fjárlögin hafi aukist of mikið á undanförnum árum og að skattkerfi okkar var orðið of veikt í tíð fyrri ríkisstjórna?