138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni til upplýsingar hefur ASÍ lengi barist fyrir þrepaskiptu skattkerfi og aukinn jöfnuður er ekki til þess fallinn að draga úr verðmætasköpun í samfélaginu, það er enginn málflutningur. Ég held að það sem hljóti að vekja athygli manns í þessari umræðu er að tiltölulega einföld skipting þriggja þrepa í tekjuskattskerfi skuli vefjast svona mikið fyrir Sjálfstæðisflokknum. Af hverju gerir hún það? Hún gerir það auðvitað vegna þess að hún leggur nokkuð meira á þá sem mest hafa. Sjálfstæðisflokknum fannst ekkert að því að reka hátekjuskattsþrep, venjulegt tekjuskattsþrep, sérstakt tekjuskattsþrep í einkahlutafélögum fyrir þá sem tóku launin sín þær leiðirnar og svo allra lægsta tekjuskattsþrepið, 10%, fyrir þá sem mestar tekjur hafa, best standa, fjármagnseigendurna í landinu. (Forseti hringir.) Fjögurra þrepa skattkerfi Sjálfstæðisflokksins, það var það sem við bjuggum við.