138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er svolítið merkilegt að heyra alla varðhundana koma hingað upp og tala um það hvernig ríkisstjórnin sé að breyta umhverfinu í átt að jöfnuði þegar ríkisstjórnin leggur fram frumvarp sem breytir gildandi lögum um persónuafslátt til verri vegar og þorir ekki að segja það beint framan í samfélagið og fær núna í dag ákúrur einmitt frá ASÍ. Hvað er ASÍ að segja í dag? Af hverju talar ekki ríkisstjórnin hreint út? Af hverju hefur hún ekki samráð? Síðan koma menn hingað upp og reyna að verja þessar gjörðir ríkisstjórnarinnar.

Eins er merkilegt að heyra það að jafnungur þingmaður og hv. þm. Helgi Hjörvar er skuli verja það að við séum að hverfa aftur til þess tíma þegar við héldum uppi mesta jaðarskattskerfi í heimi. Við erum að hverfa aftur til þess tíma þegar millitekjufólkið var hlaðið pinklum vinstri stjórnar, (Forseti hringir.) jaðarskattastjórnarinnar miklu. (Forseti hringir.) Það er það sem hv. þm. Helgi Hjörvar er hér að verja.