138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var um margt athyglisverð ræða hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Hún fór mikinn og talaði um gamlar lummur. Ég er alinn upp við það að heyra sjálfstæðismenn fyrir hverjar einustu kosningar vara við því að ef hér komist vinstri stjórn til valda muni verða atvinnuleysi, gengisfall, háir vextir, verðbólga og fleira. Allt þetta gerðist í tíð Sjálfstæðisflokksins og það sem við erum að glíma við núna er einmitt að reyna að lagfæra það sem gerðist á þeim tíma.

Hún talaði líka um landbúnað og „heim í réttirnar“ og verið væri að reka fé til dilka. Ég veit það að í réttum fer fram mikill fjárdráttur en ég hygg að Sjálfstæðisflokkurinn sé framarlega á því sviði líka og kunni þau verk vel.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann af því að hún kom hér inn á ákveðið mál, hún kom inn á að menn þyrðu ekki að taka til hendinni og þyrðu ekki að grípa til róttækra aðgerða til að mynda í sameiningu á stofnunum og fleiru og hún kom sérstaklega inn á til mynda menntamál og landbúnaðarmál. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún gæti farið frekar út í þetta og þá sérstaklega landbúnaðarkaflann og hvað það væri fyrst og fremst sem hún væri að hugsa um í því efni.