138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[02:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði um að við værum að hækka skatta og ættum að tala um það grímulaust. Það sem verið er að gera, það sem núverandi ríkisstjórn er að gera er að fara blandaða leið með það að markmiði að verja grunnstoðir samfélagsins, með það að markmiði að geta veitt áfram fjármuni inn í menntakerfið, inn í heilbrigðiskerfið, inn í félagsþjónustuna og hlífa því sem þar er.

Þegar hún kom inn á háskólakerfið og talaði um sameiningar þar og annað því um líkt, er það ekkert launungarmál að ég hefði viljað sjá meiri sameiningar til að mynda á höfuðborgarsvæðinu en að farið væri hægar í það að ráðast á minni háskóla úti á landi, eins og hv. þingmaður gerði meðan hún gegndi starfi hæstv. menntamálaráðherra. Við skulum ekki gleyma því þegar hún talar um háskólana og samkeppnina að það er nú ekki aldeilis svo að þeir einkaháskólar sem hér eru séu ekki reknir fyrir opinbert fé því að þaðan renna miklir fjármunir inn í til að mynda HR og fleiri skóla. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur farið mikinn í sameiningu háskóla (Forseti hringir.) og réðst þar sérstaklega á minni háskóla á landsbyggðinni og það væri fróðlegt að vita hvort samflokksfélagar hennar úti á landi hafi alfarið verið sammála henni í þeim tillögum sem hún lagði þar til.