138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

kjararáð.

195. mál
[02:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að þetta sé svona, eða ég skildi orð hv. þm. Helga Hjörvars þannig og hann leiðréttir mig ef ég hef misskilið eitthvað, að þetta sé hugsað sem einhvers konar stefnuyfirlýsing frekar en að þetta eigi að verða lagasetning sem hafi raunveruleg áhrif. Ég skildi þetta þannig.

Varðandi hins vegar það almenna sjónarmið hvernig þetta fyrirkomulag er, verð ég að játa að á þeim tiltölulega stutta tíma sem ég og raunar hv. þm. Helgi Hjörvar höfum setið á þingi, frá vorinu 2003, höfum við a.m.k. tvisvar áður farið í gegnum breytingar á þessum lögum vegna þess að menn hafa haft áhyggjur af því, pólitískar áhyggjur að kjararáð eða þar á undan Kjaradómur væri að komast að niðurstöðum sem væru pólitískt óheppilegar. Því velti ég fyrir mér hvort við séum ekki einfaldlega með kerfi þar sem sérstök nefnd eða sérstakt ráð á að komast að niðurstöðum sem byggja á einhverjum forsendum sem þingið er tilbúið að grípa inn í hvenær sem ákvörðunin gæti reynst umdeild. Þá erum við farin að tala um að þingið ætli að taka á öllum raunverulegum álitaefnum í þessu sambandi. Ég velti því fyrir mér, þó að mér finnist það ekki spennandi tilhugsun, hvort það væri ekki hreinlegra að ákvarðanataka af þessu tagi væri einfaldlega í höndum og á ábyrgð Alþingis sjálfs með öllum þeim ókostum sem því fylgja, því að mér sýnist að við séum hvort sem er að fá erfiðu og óvinsælu ákvarðanirnar inn á okkar borð.