138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

kjararáð.

195. mál
[02:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stefnuyfirlýsing, já, og kannski öryggisráðstöfun ef svo má segja. Ég held að vangaveltur hv. þingmanns um það hvort þingmenn eigi einfaldlega að axla þessar ákvarðanir hér inni sjálfir megi fyllilega rökstyðja. Ég held þó að það væri farsælla ef við, og þá auðvitað í venjulegu árferði, gætum undir öllum venjulegum kringumstæðum látið kjararáði slíka úrskurði eftir og hlutast sem allra minnst og allra sjaldnast til um þá vegna þess að ef við treystum okkur ekki til að taka þessar ákvarðanir sjálf verðum við auðvitað að treysta einhverjum öðrum fyrir þeim. Ég held hins vegar að þau sjónarmið verði að víkja núna við þær algerlega sérstöku aðstæður sem eru í samfélaginu eins og ég rakti áðan og við verðum einfaldlega að gefa alveg skýr skilaboð um það að Alþingi, sem farið hefur fyrir í stjórn landsins með kunnum afleiðingum, ætli að deila kjörum með öðrum og tryggja það að ekki verði gerðar breytingar á kjörum okkar sem geti raskað friði í samfélaginu og hvað þá á vinnumarkaði.