138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[09:16]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að breytingartillögurnar verði dregnar til baka til 3. umr. og vil vekja athygli þingheims á því að hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða. Ég hef rætt þetta við talsvert marga þingmenn og fæstir þeirra hafa sett sig að nokkru marki inn í þetta mál. Hér er um að ræða framtíðartrúverðugleika þingsins og þjóðarinnar út á við. Þetta frumvarp eins og það liggur fyrir opnar á og gerir í rauninni ráð fyrir að skýrslu rannsóknarnefndarinnar, eins og hún snýr að þinginu, þingmönnum og ráðherrum, verði sópað undir teppið [Háreysti í þingsal.] og öll gögn rannsóknarnefndarinnar verði lokuð inni á Þjóðskjalasafni um alla framtíð. Það er beinlínis gert ráð fyrir því að þau verði persónuvarin og óaðgengileg til frambúðar. Mjög varasamt er að styðja þetta frumvarp óbreytt og ég skora á þingmenn að skoða vel þær breytingartillögur sem við höfum lagt fram.