138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[09:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Eins og heyrðist á ræðu hv. þm. Helga Hjörvars eru breytingarnar sem verið er að gera of flóknar til að hægt sé að gera þær núna. Það staðfestir það sem ég ætla að gera grein fyrir í þessari atkvæðaskýringu, þetta er vond breyting, þetta er hættuleg breyting, hér er verið að flækja skattkerfið og gera það fullkomlega óskiljanlegt, hvort sem er fyrir skattgreiðendur sjálfa eða þá sem eiga eftir að þurfa að vinna í þessu kerfi. Þetta er vanhugsað eins og við höfum séð. Önnur hver tillaga er dregin til baka og henni breytt eftir að búið er að útskýra að þetta er óframkvæmanlegt. Þetta er illa undirbúið og ég vara við því að þessu verði komið á vegna þess að þrepaskipting af þessu tagi gerir ekkert annað en að auka jaðaráhrif í samfélaginu, hún dregur úr hvata fólks til að vinna og afla sér tekna og komast í næsta þrep og það er vont á tímum sem við þurfum svo á hvatningu að halda í samfélaginu. Við þurfum ekki fleiri aðgerðir frá þessari ríkisstjórn sem dregur kraft og þrótt úr samfélaginu. Ég segi nei við þessari vondu breytingu.