138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[09:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við erum að tala um fastsetningu á persónuafslætti. ASÍ gagnrýndi það og sagði að lágtekjufólk mundi greiða meira en að óbreyttum lögum. Í nefndaráliti okkar í minni hluta efnahags- og skattanefndar kemur fram að lágtekjufólk á bilinu frá 140.000 upp í 200.000, sem þykja ekki há laun, greiðir 3.266 kr. meira á mánuði vegna þess að núgildandi lögum hefur ekki verið framfylgt og þeim er breytt.

Sjálfstæðisflokkurinn bendir á að skattleggja mætti séreignarsparnaðinn að sinni á þessu ári og fresta öllum þessum skattgreiðslum og skattahækkunum sem hér er um að ræða.

Ég ætla að leiðrétta, frú forseti, mismæli sem mér urðu á í fyrrinótt eða einhverja nóttina þar sem ég sagði að þetta mundi hækka skatt lágtekjufólks um 2.000 kr. Það greiðir sem sagt ekki 2.000 kr. meira heldur 3.266 kr. meira til að hafa það á hreinu.