138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[10:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Meiri hluti efnahags- og skattanefndar gerir hér breytingartillögu um gildistöku laganna. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum því að gildistakan hefði átt að vera 1. janúar 2011 en þá hefði gefist heilt ár til að vinna almennilega að þessum skattalagabreytingum. Í staðinn hefði nefndin getað lagt til að tillaga Sjálfstæðisflokksins um skattlagningu séreignarsparnaðar yrði tekin upp sem mundi bæta stöðu ríkissjóðs um 16–20 milljarða og auk þess bætti það stöðu sveitarfélaganna, sem standa mjög illa, um 40 milljarða. Þetta hefði verið skynsamlegt, frú forseti, og þá hefði maður getið unnið í heilt ár að því að koma þessum vinstri sköttum á með skynsamlegum hætti en ekki þurft að leiðrétta það strax. Þegar eru nokkur atriði alveg óklár, t.d. hvenær fólk sem er með reiknað endurgjald á að reikna sér laun af arði fyrirtækjanna. Á að greiða af því tryggingagjald? Á að greiða af því alls konar (Forseti hringir.) launatengd gjöld? Ég segi nei.