138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

samruni opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.

275. mál
[10:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að fjalla um mál sem í sjálfu sér er sjálfsagt og eðlilegt, að sameina Flugstoðir og Keflavíkurflugvöll. Skynsamlegast hefði verið að ganga til þessa verks strax í upphafi en um það varð ekki niðurstaða á þeim tíma. Hins vegar er sá galli við þetta mál núna að það kemur mjög seint fram og ætlunin er að afgreiða það á mjög skömmum tíma. Ég sat í samgöngunefnd og við áttum þar ágætar viðræður við eina sex karlmenn sem komu þangað sem fulltrúar þessara fyrirtækja og samgönguráðuneytisins. Hins vegar skorti á að við gætum átt þess kost að ræða líka við fulltrúa starfsmanna og aðra þá sem málið varðar. Engu að síður er hugmyndin um að sameina þessi fyrirtæki skynsamleg. Það mun leiða til hagræðingar og eflingar á þessari starfsemi og við sjálfstæðismenn styðjum málið af þeim sökum.