138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

82. mál
[10:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

(Fjmrh.: Ætlarðu að leggja þetta á þig?) Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra spurði mig rétt áðan hvort ég mundi leggja þetta á mig. Ég efast um að nokkur Íslendingur vilji hætta fé sínu í áhættustarfsemi (Gripið fram í: Ekki eftir hrunið.) eða kaupa hlutabréf vegna þess vantrausts sem hefur orðið og ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að laga. Hér er verið að veita opinberri nýsköpun, eitthvað sem ríkið skilgreinir sem nýsköpun, sérstaka ívilnun. Ég bendi á að það er fullt af nýsköpun sem ríkisstjórnin samþykkir ekki en blómstrar af því að það er nýsköpun þrátt fyrir atlögu ríkisins að áhættufé.

Ég er ansi hræddur um að þetta verði tómt mengi, það er það sem ég á við, það muni enginn kaupa, það muni enginn hætta fé sínu í nýsköpun eða annað. Auðvitað ættu þessar reglur að gilda fyrir öll hlutafélög. Ég spyr: Hver ætti samt eiginlega að kaupa hlutabréf í núverandi stöðu? Ég segi já við þessu. [Hlátrasköll í þingsal.]