138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[11:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að setja það sem hér er að gerast í skattamálum í víðara samhengi vegna þess að búið er að fara ágætlega yfir það hversu fráleitt þetta er að mörgu leyti og órökrétt. En hvernig stendur á því að menn kjósa engu að síður að fara þessa leið og gera það á þennan hátt, þ.e. keyra þetta í gegn nokkrum dögum fyrir áramót þegar augljóst er að atvinnulíf og almenningur verða ekki í stakk búin til að takast á við þessar breytingar? Hvers vegna er þetta gert? Þetta er hluti af því sem við horfum nú fram á í íslenskum stjórnmálum að eftir að menn telja að óhófleg frjálshyggja á undanförnum árum hafi valdið hruni efnahagslífsins er ekki farin sú leið af hálfu núverandi ríkisstjórnar að reyna að finna einhverja skynsamlega rökrétta millileið. Nei, sagt er sem svo að hér hafi frjálshyggjan, hægri stefnan brugðist og þar af leiðandi eigum við að sveiflast alveg til vinstri, fara í hugmyndir algerlega á vinstri kantinum sem fyrir löngu síðan voru fallnar. Það kann að vera að hægri stefnan og frjálshyggjuhugmyndirnar hafi að einhverju leyti fallið á þessu ári og því síðasta en þær hugmyndir sem byggt er á í þessu skattafrumvarpi voru fallnar fyrir löngu, fyrir einhverjum áratugum líklega og svo náttúrlega endanlega með falli austantjaldslandanna þegar menn áttuðu sig á að það væri ekki einu sinni hægt í ríkjum þar sem yfirvöld hefðu stjórnað nánast öllum þáttum daglegs lífs að viðhalda slíku kerfi. Þess vegna er alveg stórfurðulegt að sjá að menn ætli aftur að fara yfir á þessa undarlegu braut, en til þess ætla þeir væntanlega að fara í hvers konar eftirlit og stýringu á daglegu lífi fólks því að mér sýnist að ekki muni veita af, flækjustigið til að mynda verður slíkt.

Reyndar er gert ráð fyrir því í fyrstu að launþegar eigi sjálfir að hafa eftirlit með þessu og upplýsa vinnuveitendur sína, sérstaklega þeir sem vinna á fleiri en einum stað, um það hvernig eigi að skattleggja sig. Ég sé ekki fyrir mér í ljósi þess hversu erfitt hefur reynst fyrir þingið að fá álit frá fólki sem áttar sig fyllilega á því hvert er verið að fara, frá sérfræðingum, að almenningur í landinu geti gert sér grein fyrir því hvernig hann á að uppfylla öll þessi skilyrði. Þetta er enn eitt skref í þá átt að lífið á Íslandi verði eins og það var orðið austurrísk/ungverska keisaradæminu, að stór hluti af tíma hvers manns fór í það að sinna hvers konar skriffinnsku og reyna að átta sig á og uppfylla öll þau skilyrði sem stjórnvöld ætluðust til, vegna þess að í stað þess að einfalda kerfið og horfast í augu við mistök sem gerð höfðu verið var reynt að ráðast gegn vandanum með enn meiri flækjum. Þetta er það sem við þurfum kannski allra síst á að halda við þær aðstæður sem við erum í núna þar sem við þurfum einmitt að fá skýra framtíðarsýn og opna fyrir möguleikana á verðmætasköpun. Nei, þá er lífið gert miklu flóknara og erfiðara bæði fyrir íslenskan almenning og fyrir fyrirtækin. Það er náttúrlega dregið úr öllum helstu hvötum til verðmætasköpunar en líka er fólki einfaldlega gert erfitt fyrir að vinna vinnuna sína og lifa sínu daglega lífi. Á þetta er litið að mati þeirra sem horfa á þetta utan frá, til að mynda þeirra sem hugsanlega gætu viljað koma og fjárfesta í uppbyggingu landsins, sem mjög stóran óvissuþátt og nú eru menn farnir að reikna sér, þeir sem hugleiða fjárfestingar á Íslandi, sérstakt pólitískt álag. Það hefur ekki verið til á Íslandi fyrr, þetta hefur verið í sumum þróunarríkjum þar sem stjórnvöldum er ekki talið treystandi. En nú eru menn farnir að meta Ísland út frá þessu pólitíska áhættuálagi, þannig að þeir telja sig þurfa alveg sérstaklega mikla ávöxtun á fjárfestingu sína til að réttlætanlegt sé að taka þá áhættu sem fylgir því að fjárfesta hér á landi þar sem séu við völd stjórnvöld sem geti tekið upp á hvers konar óúthugsaðri vitleysu með engum fyrirvara, eins og við erum svo glögglega að verða vitni að í þessu skattamáli. Mönnum, sem eru vanir festu í stjórn ríkja og að geta gert áætlanir fram í tímann og líta á það sem grundvallarforsendu í rekstri fyrirtækja, líst varla sérstaklega vel á að fjárfesta í landi þar sem nokkrum dögum fyrir áramót eru kynntar vanhugsaðar, og óframkvæmanlegar að hluta til, tillögur í skattamálum sem leggja mjög ósanngjarnar álögur bæði á almenning og atvinnurekendur.

Svo eru það náttúrlega hin beinu efnahagslegu áhrif sem liggja í því að það er ekkert svigrúm til staðar til að ráðast í þessar hækkanir. Stór hluti íslenskra heimila, alla vega helmingur samkvæmt mati Hagsmunasamtaka heimilanna, á í mesta basli við að skrapa saman til að eiga fyrir afborgunum af lánum. Hvaða svigrúm hefur þetta fólk til að bæta enn á sig og borga enn þá hærri skatta? Það svigrúm er ekki til staðar býsna víða og því til viðbótar verður að hafa það í huga að jafnvel þar sem slíkt svigrúm kann að einhverju leyti að vera til staðar er verið að taka úr umferð fjármagn sem hefði ella nýst til að halda neyslu í samfélaginu uppi, halda fyrirtækjum í rekstri. Á þann hátt ýtir þetta undir enn aukið atvinnuleysi en það ýtir líka með enn beinni hætti undir aukið atvinnuleysi, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur margnefnt, með hækkun tryggingagjaldsins. Það er verið að mynda sterkan hvata gegn því að ráða fólk í vinnu. Það er verið að skattleggja atvinnusköpunina fyrir utan náttúrlega hina hliðina á þeim áhrifum sem er sú að fyrirtæki munu væntanlega sum hver taka ákvörðun um að segja upp fleira fólki en ella til að spara sér tryggingagjaldið. Þetta er því þveröfugt við að sem gera ætti við þessar aðstæður.

En áhrifin eru fleiri vegna þess að þegar brugðist er svona við þessum aðstæðum hugsa menn sem svo: Af hverju á ég að vera að leggja á mig að puða hér og reyna að þrauka á launum sem hafa lækkað um helming í samanburði við sambærileg störf í útlöndum? Til að mynda laun verkfræðinga og lækna sem geta fengið vinnu nánast hvar sem er í Evrópu, laun þeirra hafa lækkað í evrum talið um helming. Hvers vegna ættu þeir að halda áfram að strita hér þegar ríkisvaldið kemur fram með þessum hætti? Þetta ýtir sem sagt undir líklega stærstu hættuna sem við stöndum frammi fyrir um þessar mundir sem er aukinn landflótti og landflóttinn er eins og tölur Hagfræðistofnunar sýna því miður þegar hafinn. Hvar stöndum við þá ef það fólk sem við þurfum svo bráðnauðsynlega á að halda til að byggja upp og skapa aukin verðmæti sér sér ekki lengur fært að starfa hér á landi vegna þess að það getur fengið sams konar vinnu á tvöfalt og jafnvel þrefalt hærri launum annars staðar? Hvað verður þá um þá skattstofna sem verið er að reyna að knýja svo mikið út úr hér? Þeir lækka enn og þessi spírall, þessi neikvæða keðjuverkun heldur áfram. Allt er þetta hluti af þeirri skökku sýn ríkisstjórnarinnar á lausn vandans sem leiðir til enn meiri vanda. Þessi neikvæða keðjuverkun sem ég hefði haldið að menn væru búnir að læra af reynslunni með, því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn standa frammi fyrir svona vanda og því hvernig eigi að bregðast við honum. Það hefur sýnt sig áratugum saman a.m.k., líklega árhundruðum saman, að þessi leið að bregðast við kreppu með því að hækka skatta og reyndar á sama tíma að ráðast í vanhugsaðan flatan niðurskurð og viðhalda óhemjuháu vaxtastigi getur ekki gengið upp, ekki fræðilega einu sinni. Ekkert land hefur nokkru sinni í sögu heimsins skattlagt sig út úr kreppu. En hér er verið að ræða um mjög óhagkvæmar, óskilvirkar og ósanngjarnar skattahækkanir á sama tíma og ríkið er að ráðast í niðurskurð og þótt vissulega þurfi að spara eigum við ekki að ráðast í flatan niðurskurð sem jafnvel í mörgum tilvikum leiðir til enn meira tjóns í framtíðinni, á sama tíma og vöxtum er haldið líklega þeim hæstu í heimi á Íslandi. Þessi þrenning myndar saman þær aðstæður að atvinnulífið getur því miður ekki náð sér upp úr vandanum og ef atvinnulífið gerir það ekki bitnar það á heimilum landsins, íslenskum almenningi og reyndar á ríkinu sem fær minni skatttekjur fyrir vikið.

Með þessum aðgerðum er í besta falli verið að fresta vandanum en mér þykir reyndar líklegt að áhrifin komi býsna fljótt fram. Til hvers er þetta gert? Til að ná 44 milljörðum, beinir og óbeinir skattar samanlagt. 44 milljarðar er kunnugleg tala því að þetta er nánast nákvæmlega það sama og nú stendur til að greiða bara í vexti af Icesave-samningunum og vextirnir vel að merkja munu alltaf lenda á íslenskum skattgreiðendum, sama hverjar endurheimturnar verða hjá Landsbankanum, hvort þær verða 90%, 100% eða 50%, vextirnir munu alltaf lenda á íslenskum almenningi. Þarna ætla menn að ráðast í þessar skaðlegu aðgerðir, gera heimilunum, mörgum hverjum, nánast óbærilegt að standa við aðrar skuldbindingar til að skrapa saman fyrir bara vöxtunum af Icesave. Reyndar má ekki láta hjá líða að geta þess að þessir vextir verða greiddir í erlendri mynt til útlanda og ekkert fæst fyrir sem er eðlisólíkt því að innheimta hér í íslenskum krónum sömu upphæð vegna þess að þegar þeir peningar sem greiddir eru í vextina fara út úr hagkerfinu verða engin margföldunaráhrif af þeim. Þeir halda ekki áfram að veltast hér og skapa aukin verðmæti. Ef íslenskur launþegi fær upphæð greidda tekur hann hana og nýtir í matvælakaup og kaup á þjónustu af öðru fólki, heldur öðrum í vinnu. Þannig veltast þessir peningar áfram og verða á endanum tvöföld eða þreföld upprunaleg upphæð. Með því má segja að þetta sé sambærilegt við það ef við ætlum að bera saman annars vegar álagningu skattanna og hins vegar vaxtagreiðslurnar, að þá ættu vaxtagreiðslurnar af Icesave að vera a.m.k. tvöfalt hærri vegna þeirra margföldunaráhrifa sem við förum á mis við með því að glata þessum peningum úr hagkerfinu og fá ekkert í staðinn.

Bent hefur verið á að hér sé fyrst og fremst um að ræða pólitíska aðgerð miklu frekar en hagfræðilega eða aðgerð sem sýnt hefur verið fram á hvernig eigi að gagnast ríkinu og þá er undarlegt að menn skuli telja nauðsynlegt að hrinda þessu í framkvæmd algerlega án þess að vera búnir að klára málið eða reikna það til enda núna rétt fyrir áramót. Hvers vegna gefur ríkisstjórnin sér ekki tíma á næsta ári til að ráðast í þessar kerfisbreytingar telji hún það þjóna einhverjum sérstökum pólitískum tilgangi? Hefur ríkisstjórnin ekki trú á því að hún endist út næsta ár? Ætlar hún að reyna að koma í gegn sem allra mestum kerfisbreytingum þess vegna? Ég veit ekki hver ástæðan er en mér skilst á reyndari mönnum en mér í þinginu að aldrei hafi sést annað eins vinnulag og núverandi ríkisstjórn hefur viðhaft við gerð fjárlaga og í þessum skattatillögum sínum.

Í lokin, frú forseti, mundi ég vilja vitna í álit 1. minni hluta í efnahags- og skattanefnd þar sem fjallað er um óframkvæmanleika sumra af þeim atriðum sem hér er ráðist í. Það hefur nefnilega ekki verið sýnt fram á hvernig hægt er að framkvæma vissa hluti eins og skattlagninguna á innstæður í erlendri mynt og gengishagnað af innstæðunum. Það virðist sem sé þurfa að finna upp, ná framförum í heimi stærðfræðinnar til þess að ein af skattlagningarhugmyndum ríkisstjórnarinnar, þessi um tekjur af völdum gengisbreytinga, sé framkvæmanleg og sama má eiginlega segja um þennan nýja eignarskatt sem hefur ekki verið sýnt fram á hvernig hægt er að útfæra og fjölmörgum spurningum þar er ósvarað. Því miður hef ég ekki þann tíma sem ég gerði ráð fyrir til að fara í það en þetta er bara eitt af ótal vanreifuðum atriðum í þessu furðulega máli.