138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[11:58]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn er að beita mjög óviðkunnanlegu ofbeldi gagnvart sjómönnum landsins. Hún ræðst að fjölskyldum sjómanna og sýnir sjómönnum ótrúlega lítilsvirðingu með því að leggja til að sjómannaafsláttur verði lagður af á fjórum árum. Sjómenn eru burðarás íslensks samfélags. Þaðan koma 60% af þjóðartekjunum. Þeir vinna harðsæknustu vinnuna við erfiðustu aðstæður og í 40 ár hefur sjómannaafslátturinn verið hluti af kjörum þeirra, kom inn sem hluti af kjörum og hefur verið þannig. Þetta eru hlutir sem við eigum að virða í stað þess að snýta framan í sjómenn.

Það er nú svo að sjómannaafslátturinn er 1.000 kr. á dag og hámark sjómannaafsláttar er 330.000 kr. að fullu. Að meðaltali má segja að sjómenn séu 180–200 daga á hafi úti og á árinu 2008 fór 1 milljarður kr. í sjómannaafslátt fyrir 5.700 sjómenn. (Gripið fram í: … Icesave.) Sjómannaafslátturinn er líka viðurkenning samfélagsins á erfiðu starfi við erfiðar aðstæður, fjarri samfélaginu, fjarri dagskrám samfélagsins hvort sem þær eru í leikhúsum, tónleikasölum, fyrirlestrum eða öðru sem venjulegt samfélag býður upp á. Sjómenn taka ekki þátt í þeirri velsæld samfélagsins. Þeir stíga ölduna til að afla fjár fyrir íslenskt samfélag. Þeir eiga að fá greitt fyrir að stíga ölduna. Þeir eiga að fá styrk í samræmi við það að margar stéttir samfélagsins njóta margs konar styrkja og hafa gert um áratugaskeið. Það þykir þó ekki tiltökumál af því að það er á landi. Það er ekki þar sem fiskifýlan er. Það er verið að hjóla í eina stétt af fjölmörgum í landinu sem hafa sérréttindi. Það á að offra sjómönnum í þessu ofbeldi ríkisstjórnarinnar.

Hv. þm. Helgi Hjörvar státaði af því fyrr í umræðunni að norræna skattkerfið væri til fyrirmyndar og ætti að vera fyrirmynd Íslendinga í breytingum á skattkerfinu í þrepaskiptingu. Sjómannaafslátturinn í Noregi, virðulegi forseti, var nýlega hækkaður og er 3,3 millj. kr. á ári. Hámarkið á Íslandi er 330.000 kr. og svo á að leggja þetta af. Sjómannaafslátturinn í Færeyjum er 1.850.000 kr. á sjómann á ári, í Danmörku 1 millj. kr., í Svíþjóð 630.000. Hvar er núna réttlætið í norræna skattkerfinu sem hæstv. ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna þykist miða við? Þetta er allt orðagjálfur, sýndarmennska og hégómi.

Það vantar sjómenn á Íslandi, það vantar jafnvel sjómenn á bestu báta í bestu plássin. Það sýnir að staðan er alvarleg. Það er ekkert hugsað um menntun sjómanna og flotinn er að afmenntast í því sem gefur okkur 60% af þjóðartekjunum. Þetta er viðtekið vandamál sem byrjaði reyndar í þessum efnum til að mynda árið 1951 hjá þeirri vinstri stjórn sem þá var við lýði. Ef þessi valdbeiting verður að lögum, virðulegi forseti, munum við baráttumenn Íslands hefja á sömu stundu baráttu fyrir því að sjómenn endurheimti þennan rétt sinn. Það á að vera skylda okkar og metnaður að standa við bakið á sjómönnum og verja þá út í ystu æsar. Þeir ganga í gegnum pusið og brimskaflana og við eigum að verja þá. Þeir eru að vinna fyrir okkur og í hag samfélagsins í heild, (Forseti hringir.) meira en aðrir landsmenn, sem og fiskvinnslukonur landsins, virðulegi forseti.