138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[12:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Af því að senn líður að lokum umræðna um þau stóru tekjuöflunarfrumvörp eða skattafrumvörp sem hér hafa verið til umfjöllunar á Alþingi að undanförnu vil ég nota þetta tækifæri og byrja á því að þakka hv. efnahags- og skattanefnd fyrir mikla og góða vinnu. Ég vil þakka nefndarmönnum og einnig starfsmönnum nefndasviðs Alþingis sem hafa lagt hart að sér að undanförnu sem og auðvitað starfsmönnum í fjármálaráðuneytinu og hjá ríkisskattstjóra og fleirum sem lagt hafa hönd á plóg að undanförnu.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, einkum Sjálfstæðisflokksins, hafa í umræðunum haft af því miklar áhyggjur að þessar aðgerðir í skattamálum kunni að valda samdrætti eða auka á samdrátt í hagkerfinu og hafa farið um það allmörgum orðum. Ég tel að ekki sé ástæða til að hafa þessar þungu áhyggjur og nefni í því sambandi í fyrsta lagi að þrátt fyrir þessar skattkerfisbreytingar og nokkuð aukna tekjuöflun á nýjan leik eftir mikla lækkun undanfarin ár verður stig tekjuöflunar hins opinbera samt til muna lægra en það hefur verið á umliðnum árum sem hlutfall af þjóðartekjum og til muna lægra en það er í mörgum nálægum löndum svo sem á hinum Norðurlöndunum.

Í öðru lagi hafa ýmsir aðrir þættir áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Þar má nefna í fyrsta lagi að hagstætt gengisstig krónunnar hefur þegar örvað útflutningsstarfsemina og hleypt miklu lífi í þær greinar. Við horfum nú sem betur fer fram á lækkandi vexti sem að sjálfsögðu leggjast með okkur í því. Lækkandi verðbólga og lækkandi vextir eru eitt af því jákvæðasta sem nú er að gerast og skila okkur því umhverfi sem við höfum auðvitað lengi stefnt að. Við sjáum bæði lægri vexti og lægri verðbólgu en við höfum gert um margra missira eða ára skeið.

Það leggst líka með okkur að nú stefnir í að vaxtakostnaður ríkissjóðs á næstu árum verði milljarðatugum lægri en litið gat út fyrir að yrði framan af ári. Það svigrúm, ásamt heldur hagstæðari skilyrðum á síðari hluta ársins, nýtum við að fullu til að draga úr annars áformuðum skattahækkunum. Það kemur að sjálfsögðu hagkerfinu til góða og mælist í öllum reiknilíkönum í formi aukinna umsvifa í hagkerfinu og meiri kaupmáttar ráðstöfunartekna. (PHB: Með því að selja banka.) Þegar þessir hlutir eru allir hafðir í huga eru ágætar horfur á því að spár um að viðsnúningur verði í íslenska hagkerfinu á næsta ári og við förum að sjá bata á síðari hluta ársins gangi eftir. Ég deili því ekki þessari miklu svartsýni sem svífur yfir vötnum í ræðuhöldum stjórnarandstæðinga með þeim. Þó að það sé um það bil svartasta skammdegið einmitt þegar við eigum þessi orðaskipti er engu að síður ástæða til að muna eftir því að sól fer að hækka á lofti og það eru að mörgu leyti bjartari horfur fram undan í okkar efnahagsmálum.

Um efni frumvarpanna að öðru leyti vil ég segja um tekjuskattinn og þrepaskiptan tekjuskatt sem hér er innleiddur að hann er óumdeilanlega kostur frá sjónarhóli tekjujöfnunar. Markmiðið er að sjálfsögðu að ná m.a. fram í gegnum það að hlífa lægstu launum og lægri launum við sköttum. Það er enginn vafi í mínum huga að til framtíðar eigum við að stefna á að lækka skattprósentuna á lægsta þrepi um leið og efnahagslegar aðstæður leyfa.

Varðandi umræður um verðtryggingu persónufrádráttar eða aðra slíka hluti er rétt að hafa í huga að það hleypur ekki frá okkur að skoða það ásamt öðru á næsta ári, hvernig þeim hlutum verður fyrir komið í ljósi efnahagsaðstæðna og aðstæðna í ríkisfjármálum sem hlýtur að vera verkefnið. Varðandi sjómannafrádrátt er gefinn þar rúmur aðlögunartími og ekki farið inn í kjarasamninga á gildistíma þeirra. Um tryggingagjald er það að segja að auðvitað er ekkert fagnaðarefni að þurfa að hækka launatengd útgjöld en atvinnulífið er þeirrar skoðunar að atvinnutryggingagjaldið eigi að bera kostnað af atvinnuleysi. Það er lagt hér til grundvallar og það er ástæða til að hrósa forsvarsmönnum atvinnulífsins og aðilum vinnumarkaðarins fyrir að kikna ekki undan þeirri ábyrgð að leggja sitt af mörkum til að hægt sé að greiða atvinnulausum fullar bætur á komandi árum. Tekjuskattur lögaðila er hækkaður á nýjan leik í 18%. Það var ofrausn að mínu mati að lækka hann á síðasta ári. Fjármagnstekjuskattur einstaklinga er færður til betra horfs með upptöku frítekjumarks og prósentu sem er nær því sem gerist í nálægum löndum en hann verður áfram með því lægsta sem þekkist hér engu að síður. Að lokum nefni ég auðlegðargjaldið þar sem efnaðasti hluti samfélagsins mun á næstu árum leggja eitthvað af mörkum, fólk sem hefur safnað miklum fjáreignum á undanförnum árum.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að eftir sem áður og þrátt fyrir þessar breytingar þarf (Forseti hringir.) að leggja mikla vinnu á næsta ári í heildstæða yfirferð á skattkerfinu til að laga það að breyttum veruleika og breyttu (Forseti hringir.) efnahagslegu umhverfi á Íslandi. Það verður gert.