138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[15:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Öllum hv. þingmönnum er ljóst að það þarf að finna leiðir til að leysa vanda ríkissjóðs. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn flutt bæði þingsályktunartillögu og frumvarp til laga um það hvernig megi bregðast við þeim vanda. Grunnhugsunin er að koma í veg fyrir að hér verði gripið til skattahækkana við aðstæður þar sem þjóðin þolir ekki skattahækkanir. Hér hefur orðið gríðarlegur samdráttur vegna þess að fjármálamarkaðurinn hrundi og það verður samdráttur vegna þess að við þurfum að draga saman í ríkisútgjöldum. Það hefur orðið samdráttur hjá heimilunum í landinu vegna þess að fjármögnunarkostnaðurinn hefur hækkað, launin hafa lækkað og kaupmátturinn dregist saman.

Við þessar aðstæður, frú forseti, er glapræði og röng efnahagsstefna að hækka skattana á heimilin í landinu. Það er þess vegna, frú forseti, sem við segjum nei.