138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[15:28]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þrepaskipt tekjuskattskerfi er að mörgu leyti mjög gott og við styðjum það. Við teljum hins vegar forsendurnar að baki þeim skattahækkunum sem gert er ráð fyrir ekki ganga upp. Þær byggjast á keynesískum kenningum sem við ákveðnar aðstæður ganga upp en eins og aðstæður eru í íslensku samfélagi í dag gengur einfaldlega ekki að hækka skatta á almenning með þessum hætti.

Við bendum á aðrar leiðir í okkar tillögum og leggjum til að þær atvinnugreinar sem nota auðlindirnar hvað mest verði látnar greiða fyrir þau afnot. Það virðist vera ætlun ríkisstjórnarinnar að hafna því. Við hörmum það og við hörmum líka að meiri skattar séu lagðir á almenning eins og gert er í þessu frumvarpi þó að margt gott megi um það segja. Það hefði þurft betri undirbúning og lengri undirbúningstíma og við teljum að þau mistök sem verða gerð um áramótin við skattaútreikninga muni hafa slæmar afleiðingar á fólk.