138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Ég ætla ekki að reyna að spyrja hann út í stærstu málin. Mér heyrist að meiri hlutanum verði ekki hnikað, hvort sem það er í skattamálum eða útgjaldamálum, og er sérkennilegt að vita til þess að meiri hlutinn hafi ekki verið tilbúinn til að fara með minni hlutanum í nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir í þessu frumvarpi.

Ég ætla samt ekki að dvelja við það, heldur ætla ég að dvelja við eitt sem lítið hefur verið rætt en er samt stórmál, hrossakaup með sjúklinga milli ráðuneyta. Í fjárlagafrumvarpinu er óskiljanleg tilfærsla á hjúkrunarrýmum frá heilbrigðisráðuneyti yfir í félags- og tryggingamálaráðuneyti. Þetta var gert án nokkurrar einustu umsagnar fagaðila og komu allir af fjöllum sem hagsmuna hafa að gæta þegar þeir voru spurðir að þessu og lögðust allir sem einn gegn þessu, í það minnsta þeir sem hv. heilbrigðisnefnd kallaði til. Röksemdirnar voru mjög sérkennilegar. Það kom fram að þetta væri vegna þess að öldrun er ekki sjúkdómur. Það kemur þessu máli nákvæmlega ekkert við, enda ekki bara verið að tala um þá sem eldri eru. Eins og allir vita heita hjúkrunarrýmin svo af gildri ástæðu og eru heilbrigðisstofnanir. Þar er fólk sem er veikt og þróunin er að það verður veikara af ástæðum sem ég ætla ekki að fara í hér.

Sömuleiðis var nefnt að þetta væri út af færslu málaflokks til sveitarfélaga en það kemur því auðvitað ekkert við. Síðan heyrði ég líka þau rök að það hefði verið gengið frá þessu fyrir tveimur árum sem eru hrein og klár ósannindi, enda stóð aldrei annað til en að heilbrigðisþjónusta fyrir aldraða og aðra yrði hjá heilbrigðisráðuneyti.

Nú er verið að færa 30% hjúkrunarrýma til baka, en það virðist ekki vera nein heil brú (Forseti hringir.) í því hvernig það er gert, hver eru tekin og hver ekki. Það væri gott (Forseti hringir.) ef hv. formaður mundi útskýra þessa 30% tilfærslu til baka.