138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina. Hann segir réttilega, og ég ætla honum ekki annað, að hv. fjárlaganefnd sé ekki að véla um þessi mál, þetta eru bara hrossakaup á milli ráðherra. Þetta verður bara svona í ár og síðan verður haldið áfram með það. Ég get vel skilið að hv. þingmaður geti ekki svarað þessu neitt betur, það er engin leið að greina hvaða regla er í gangi þegar menn sjá þessa nýju skiptingu. Leiðin sem menn ætluðu að fara í fjárlögunum var mjög slæm og hefði án nokkurs vafa haft slæm áhrif á þjónustuna. Nú er einhvers konar leiðrétting á því en þó þannig að það er augljóslega eins og menn hafi verið í matador. Einn fær Austurstræti, annar Laugaveg og menn ætla síðan eitthvað áfram að véla um þetta og leika sér í matador með sjúklinga sem er mjög alvarlegt. Ég vona að hv. þingmaður reyni að beita sér fyrir því að menn fari að vinna faglega í þessum málaflokki en hagi sér ekki eins og hér kemur fram.