138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski með þetta eins og margt annað, það skiptir auðvitað máli að þarna er verið að vinna samkvæmt ákveðnu samkomulagi, þarna eru ákveðnar upphæðir á hreinu, hvað er verið að borga. Ágreiningurinn er svo um með hvaða hætti eigi að bókfæra það í bókhald ríkisins, hvort þetta kemur inn sem beinn tekjuliður eða sem fyrir fram greiddur skattur og fært þá yfir efnahag með einhverjum hætti.

Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson bendir á, það hefur verið ágreiningur á milli fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar um þetta mál. Sá ágreiningur var ekki leiddur til lykta og við í fjárlaganefnd höfum ekki tekið afstöðu til þess ágreinings. Þetta kemur þá til atkvæða eins og það var sett fram í fjárlagafrumvarpinu og gerir meiri hluti fjárlaganefndar ekki tillögur um að breyta því en látum það standa fyrst og fremst eftir að það breytir ekki afkomunni eða því sem hér er verið að ljúka til að ná samræmingu í fjárlagafrumvarpinu.