138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að þegar ástand efnahagsmála er með þeim hætti sem það er í dag er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld hafi skýra stefnu og sendi þau skilaboð til samfélagsins hvert skuli stefnt og hvernig skuli taka á vanda stórra hópa, eins og þess hóps sem mótmælti hérna fyrir utan. Nú var svarið kannski svolítið loðið upp á það að í rauninni væri ekki búið að taka neinar ákvarðanir en þeirra væri að vænta þegar lokafjárlög 2008 yrðu tekin til meðferðar.

Þá er næsta spurning, sem ég held að ég hafi spurt áður í umræðunni: Hvenær er lokafjárlaga fyrir árið 2008 að vænta og eru einhver önnur verkefni, eitthvað annað í pípunum hjá ríkisstjórninni í atvinnumálum varðandi þá hópa sem við ræðum?