138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki þrotinn að kröftum, enda alinn upp á traustum grunni í einhverri almestu matarkistu kjördæma sem um getur og það stendur að sjálfsögðu með hverjum manni sem nýtur þeirra gæða sem þar er að finna. Með fullri virðingu fyrir öðrum hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni hef ég þá trú að einna mesti kengurinn sé í hæstv. fjármálaráðherra, svo það liggi hér fyrir.

Ég vil að öðru leyti segja um það atriði sem hæstv. ráðherra gerði hér að umtalsefni, þ.e. sölu bankanna, að það kann vel að vera að skilningur hans sé réttur. Ég er hins vegar ósammála því að þetta sé lagt upp með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir, einfaldlega vegna þess að það er rétt að það voru lagðar fram 775 milljónir í hvert þessara þriggja fjármálafyrirtækja sem stofnuð voru með skýrri heimild frá Alþingi. Þetta var lágmarksstofnfjárframlag að lögum. Virði þeirra fyrirtækja sem stofnuð voru var miklu meira en 775 milljónir þannig að samningarnir við kröfuhafana snerust í rauninni um virði þessara fyrirtækja, ekki satt? Það kann vel að vera að þetta sé ekki bein sala á eignum en þetta eru samningar um verðmæti eigna. Í mínum huga er það ígildi kaups og sölu, þeir samningar sem um slík efni fjalla. Á þeim grunni byggi ég þessa skoðun mína, sem ég er afdráttarlaust fastur á, að það hafi þurft skýra lagaheimild frá Alþingi til þess að þessi framkvæmd ætti að eiga sér stað. (Gripið fram í: Einkavæðing bankanna.)