138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það stendur með manni sem maður vex upp af og þar á meðal kjarngott fæði, eins og það að hafa tekið þorskalýsi frá barnsaldri, étið sauðasíður og magál og bútung og fleira gott sem við höfum sjálfsagt gert báðir, ég og hv. þingmaður. (Gripið fram í: Taðreykt.)

Varðandi bankana aftur þá finnst mér þetta í sjálfu sér vera deila um afar tæknilegt lagalegt atriði. Ég vil taka skýrt fram að auðvitað er best að taka af allan vafa um að fyrir þessari ráðstöfun varðandi bankana standi traustar lagastoðir og það er að sjálfsögðu mín ósk. Ég fagna því að svo verði gert, að það komi fram frumvarp sem vonandi verður stutt og fær afgreiðslu og þá þurfa menn ekki að eyða púðri í að takast á um það.

Samningarnir milli gömlu og nýju bankanna sem ríkið leiddi fyrir hönd ríkisins voru uppgjörssamningar til að fá fram endanlega niðurstöðu varðandi verðmæti eigna og skulda sem flutt voru í nýju bankana þannig að rétt væri gert upp í lokin. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að þar er samið um verðmæti og hvernig þeim skuli skipt eða ráðstafað milli aðila. Við höfum litið svo á og það er ekki úr lausu lofti gripið vegna þess að lögfræðileg greinargerð var tekin saman um þetta fyrir okkar hönd snemma í þessu ferli þannig að enginn vafi léki á að samningarnir mættu fara í það ferli sem þeir gerðu með samkomulaginu 20. júlí sl. Ef við hefðum talið einhvern vafa leika á því að heimildir stæðu til þess að klára málin þannig hefðum við brugðist við því í framhaldinu. Það var ekki talið af hálfu þeirra lögspekinga sem aðstoðuðu okkur og á bak við það liggur lögfræðileg álitsgerð frá hæstaréttarlögmanni sem var tekin saman af því tilefni. Við höfum því verið í mjög góðri trú í þeim efnum, að þetta væri hafið yfir vafa, en til þess að gera það enn rækilegar og fyrirbyggja allan hugsanlegan (Forseti hringir.) vafa og misskilning er rétt að stofna til þessarar ótvíræðu lagastoðar.