138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir um ári síðan hrundi hér heilt bankakerfi. Þjóðin var í miklum vanda og öllum ljóst að grípa þurfti til margra mikilvægra aðgerða. Við sem vorum þá í stjórnarandstöðu, Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir, tókum sameiginlega þá ákvörðun að gefa ríkisstjórninni andrými til að fara í nauðsynlegar neyðarráðstafanir. Það var mjög erfitt á þeim tíma að átta sig á hvert umfang hrunsins var og menn reyndu svona að horfa í gegnum reykinn og átta sig á stöðunni. Hæstv. fjármálaráðherra hefur notað þennan tíma og sagt að stjórnarandstaðan eigi jafnvel að gefa meiri hlutanum sama svigrúm til að fara í gegn með þær skattahækkanir sem hér eru til umræðu, svo og Icesave sem tengist því máli óhjákvæmilega. Ég vil samt segja eitt: Nú er ár síðan bankarnir hrundu, nú er reykurinn horfinn. Menn hafa haft marga mánuði til að fara yfir og skoða hvernig þeir ætluðu sér að sækja þær tekjur sem þurfti til að brúa fjárlagagatið. En hvað gerist? Nokkrum dögum fyrir jólahlé koma fram róttækar tillögur um breytingu á skattalögum, á skattumhverfinu, verið er að fara frá því einfalda kerfi sem landsmenn hafa búið við undanfarin ár. Það er í rauninni með miklum eindæmum að ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra skuli leyfa sér að koma hér og óska eftir náð og miskunn stjórnarmeirihlutans til þess að koma þessum umdeildu málum í gegn. Ef ríkisstjórnin vissi nákvæmlega hvert hún ætlaði að stefna, ef hún hefði skýr markmið, væri þetta kannski allt öðruvísi en við búum við í dag, en vandamálið er hins vegar það að skýru markmiðin vantar. Það vantar algjörlega leiðsögn frá ríkisstjórninni um það hvert hún ætlar að stefna með þjóðina.

Auðvitað gagnrýnum við í minni hlutanum það harðlega að ráðist sé í breytingar á skattkerfinu og því sé umbylt hér á nokkrum dögum — að sjálfsögðu mótmælum við því harðlega, eins og atvinnulífið hefur gert sem og einstaklingar — og það jafnvel þótt menn hafi ekki fengið nokkurn tíma til að fara yfir og skoða hvað þetta mun hafa í för með sér.

Ég hef nefnt hér í umræðunni að ríkisstjórnin ætli að sækja sér um 51 milljarð og það er samkvæmt bréfi sem fjárlaganefnd barst frá fjármálaráðuneytinu. Það er samt óvissa um hversu miklar tekjur ríkisstjórnin ætlar að sækja sér í vasa skattgreiðenda og það eitt og sér er mjög alvarlegt mál. Ekki er endalaust hægt að sækja peninga í vasa venjulegs fjölskyldufólks sem hefur farið í það að koma sér upp þaki yfir höfuðið á undanförnum árum og ekki er hægt að leggja meiri álögur á eldri borgara og öryrkja. Það er alveg sama þótt stjórnarmeirihlutinn komi hér ítrekað upp og segi að verið sé að vernda þessa þjóðfélagshópa, það er einfaldlega ekki þannig, það eru auknar álögur á eldri borgara og öryrkja.

Það sem við framsóknarmenn höfum talað um í umræðunni er að staðinn verði vörður um þá sem minna mega sín í okkar þjóðfélagi. Við viljum ekki umbylta núverandi skattkerfi. Við segjum: Ef fara á í róttækar skattbreytingar á skattkerfinu, verður ríkisstjórnin og Alþingi Íslendinga að gefa sér lengri tíma. Við erum reiðubúin að skoða allar góðar tillögur. Við erum reiðubúin að skoða hvort koma megi á t.d. hátekjuskatti en það verður að vera skilyrði að sá skattur leggist ekki á millitekjufólk. Það er einmitt það sem núverandi skattbreytingar gera. Það verður að vera þannig að þetta sé alvöruhátekjuskattur. Við höfum líka talað fyrir því að hækka megi persónuafsláttinn. Við höfum nefnt að samningur sem gerður var við aðila vinnumarkaðarins um að persónuafslátturinn mundi fylgja verðlagi hafi verið svikinn og mætt mikilli andstöðu úr þeirri átt, og þar á bæ hjá aðilum vinnumarkaðarins hafa menn jafnvel komist svo sterkt að orði að segja að stöðugleikasáttmálinn hafi í rauninni verið svikinn. Það er staðan á Íslandi í dag, þessari ríkisstjórn hefur tekist á örfáum mánuðum að fá nánast alla hagsmunahópa upp á móti sér.

Eitt lítið dæmi: Hæstv. félagsmálaráðherra boðaði Hagsmunasamtök heimilanna á fund með sér. Lýsti því yfir að þetta hefði verið góður samráðsfundur, jafnvel þó að hann hefði í rauninni tilkynnt þeim hvaða aðgerðir hann ætlaði að fara út í. Hvað gerðist í kjölfarið? Hagsmunasamtök heimilanna sendu frá sér stríðsyfirlýsingu, hvorki meira né minna, gagnvart núverandi ríkisstjórn. Hér fyrr í dag var opnaður liðurinn tapað/fundið. Hverjir eru þessir óskilamunir sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar köllum eftir? Jú, skjaldborgin um heimilin. Skjaldborgin um heimilin, vegna þess að ekkert af þeim skrefum sem ríkisstjórnin er að stíga núna með breytingum á skattkerfinu, mun gera það að verkum að heimilum landsins verði borgið. Við framsóknarmenn höfum áhyggjur af þessu og teljum að til þess að sækja tekjur, til þess að brúa fjárlagagatið, hefði einfaldlega verið hægt að hækka álögur á fólk innan kerfisins. Það hefði verið sanngjarnasta leiðin, það hefði verið einfaldasta leiðin og það hefði líka leitt til þess að lán heimilanna hefðu ekki hækkað.

Við höfum líka talað fyrir því að hægt sé að fara þá leið sem aðrir stjórnmálaflokkar hafa bent á, að skattleggja séreignarsparnaðinn og sækja þar með tugi milljarða og nota þá núna þegar við þurfum sem mest á því að halda. Við höfum boðað skynsamlega leið og við höfum talað fyrir hófsemi og að farið verði ítarlega í málin. Við höfum líka boðið ítrekað fram aðstoð okkar og samvinnu en því hefur ítrekað verið hafnað og það er miður. Ég held að það sem þjóðin hefði mest þurft á að halda nú fyrir jólahátíðina væri samstaða milli þings og þjóðar; samstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu, en þeirri útréttu sáttarhönd hefur í rauninni verið hafnað.

Eitt gott dæmi um þann vandræðagang sem hefur einkennt ríkisstjórnina á síðustu dögum. Það kom í ljós, eftir þarfa ábendingu frá fyrrum fjárlaganefndarmanni, að meiri hlutinn er nú að ráðskast með eign ríkisins í bönkunum án lagaheimildar; án heimildar í 6. gr. fjárlaga, án heimildar í fjáraukalögum. Það er grafalvarlegt mál. Nú keppist ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra við að reyna að sannfæra þjóðina um að þetta sé í rauninni ekki sala, þetta sé einhvers konar yfirfærsla á eignarréttindum, sem í eina tíð hefði jú kallast sala, á milli tveggja aðila. En hvaða nafni sem menn kalla þetta er það einfaldlega svo að þegar ríkið ráðstafar eignum þjóðarinnar þarf samkvæmt stjórnarskránni að hafa til þess skýra heimild. Ríkisstjórnin hefur á vissan hátt viðurkennt að það þurfi heimild vegna þess að ég hef fyrir fram mig frumvarp til laga um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að þetta frumvarp væri lagt fram til þess að menn hefðu vaðið fyrir neðan sig. Ég held að það sé ekki ástæðan fyrir því að slíkt frumvarp er lagt fram, ég held að aðalástæðan fyrir því sé sú að Ríkisendurskoðun benti á að nýju bankarnir væru 100% í eigu ríkisins. Það var íslenska ríkið sem stofnaði bankana á sínum tíma og það er 100% eigandi. Ef það væri ekki svo, eins og reynt hefur verið að halda fram í umræðunni, skulum við átta okkur á því að íslenska ríkið hefur verið að sýsla með eignarhluta sem hefur ekki verið í eigu þess. Það út af fyrir sig er jafnvel alvarlegra mál en það að menn skyldu hafa klúðrað því að setja heimild í lagafrumvarp.

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn erum á minnihlutaáliti ásamt öðrum þingmönnum í minni hluta í fjárlaganefnd en með fyrirvara. Fyrirvarinn er sá, eins og ég hef komið inn á, að við viljum fara aðrar leiðir en sjálfstæðismenn til að sækja tekjur í ríkiskassann. Við viljum ekki hafna alfarið öllum skattahækkunum, við viljum gera þær innan núverandi kerfis, við viljum hafa þær einfaldar og ekki breyta kerfinu núna á nokkrum dögum. Við viljum líka sækja tekjur í séreignarsparnaðinn og þar með væri hægt að brúa það bil sem ríkisstjórnin glímir við.

Fyrir einum og hálfum klukkutíma, eða tveim tímum réttara sagt, mættu hér á Austurvöll með þung vegavinnutæki menn sem kalla sig verktakalestina. Þeir ræddu við okkur í fjárlaganefnd. Þeir skoruðu á þingheim að endurskoða þá ákvörðun sem meiri hlutinn hefur tekið að nýta ekki ónýttar fjárlagaheimildir Vegagerðarinnar. Þarna er um 4,5 milljarða að ræða. Við framsóknarmenn höfum sagt að nýta eigi þessa heimild í verkefni út um allt land, jafnvel í smáverkefni sem geri það að verkum að verktakar, smáir sem stórir, hafi verkefni og missi þar af leiðandi ekki mannskap frá sér sem og tekjurnar. Við verðum að taka til greina þær ábendingar sem við fengum í því bréfi sem okkur var afhent, þar sem á það er bent að þessir aðilar hafi þurft á undanförnum mánuðum að taka á sig meiri skerðingu en aðrir atvinnuhópar. Það er einfaldlega ekki hægt að segja við verktaka í landinu að hægt sé að ganga á tekjustofn þeirra.

Virðulegi forseti. Minni hlutinn, eða sá sem hér stendur er ekki með á breytingartillögum sjálfstæðismanna. Við munum taka sjálfstæðar ákvarðanir hvað þær varðar og koma með okkar eigin tillögur.