138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarpið í lokaumræðu og ég verð að segja að þótt okkur greini kannski á um hvernig við viljum nálgast hlutina tel ég því miður að ríkisstjórnin fari nú mjög vitlausa leið með því að hækka álögur á heimilin í landinu.

Ég vil byrja á að vekja athygli á því, virðulegi forseti, að ef farið væri að ráðum okkar sjálfstæðismanna væri hægt að skila hallanum á ríkissjóði, sem er geigvænlegur og áætlaður 100 milljónir á næsta ári en ég er ansi hræddur um að hann verði mun meiri þegar upp verður staðið — ef farið væri að tillögum okkar sjálfstæðismanna mundi þessi halli minnka um 30 milljarða og 70 milljarða halli yrði á ríkissjóði á næsta ári. Það veldur mér miklum vonbrigðum að hæstv. ríkisstjórn vilji ekki hlusta á þessar tillögur okkar en telji skynsamlegra að fara þessa leið og telji þar af leiðandi að það sé borð fyrir báru hjá heimilunum í landinu að skattpína þau enn frekar.

Virðulegi forseti. Mig langar að árétta í þessu tilefni, og það hefur komið ábending um það frá Hagsmunasamtökum heimilanna, að við þær skattabreytingar sem ríkisstjórnin ætlar að fara í, ef þær verða að veruleika sem því miður margt stefnir í, munu skuldir heimilanna hækka um 12 milljarða. Það þýðir að þegar upp verður staðið munu uppsöfnuð áhrif aðgerðanna verða 50 milljarðar kr. sem leggjast til viðbótar á heimilin í landinu. Virðulegi forseti, ég deili ekki þeim skoðunum með hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta að heimilin í landinu eigi að bera þessar auknu byrðar. Ég hef verulegar áhyggjur af því að með þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sé verið að sliga heimilin endanlega og það muni skapa atgervisflótta og þar fram eftir götunum, sem er alveg hreint með ólíkindum.

Síðan vil ég líka benda á að þegar menn stofnuðu nýju bankana og hófu að færa húsnæðislánin á milli yfir til þeirra hefur það verið gert með töluverðum afföllum. Maður hefur heyrt tölur upp í 60% sem niðurfærslan á lánunum hefur verið. Síðan er haldið áfram að rukka fjölskyldurnar í landinu um öll lánin. Þetta veldur mér miklum áhyggjum og ég sendi skriflega fyrirspurn um daginn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Það kom nú lítið út úr því nema það sem vitnað var í, bankaleynd og annað, en að öðru leyti var snúið út úr því að mestu leyti. Virðulegi forseti, ég held að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn geri sér ekki grein fyrir þeirri vegferð sem nú er farin.

Ég vil undirstrika að getuleysi ríkisstjórnarinnar til þess að taka á vandamálunum er algjört. Það er sennilega einsdæmi að hluti stjórnarandstöðunnar, við sjálfstæðismenn buðum upp á að á milli 2. og 3. umr. yrði farið í að útfæra tillögur til þess að skera enn frekar niður í útgjöldum ríkisins. Við buðumst til að fara í þá vinnu með stjórnarmeirihlutanum að skera niður um 8 milljarða vegna þeirra gífurlegu vandamála sem ríkissjóður er í. Flestir gera sér grein fyrir því að það þarf að gera. Það verður að fara í niðurskurð til þess að ná endum saman því annars munum við einungis greiða vexti og enn þá meiri vexti, sem er ekki gott. Því miður hafði ríkisstjórnin ekki þrek í það. Hún afþakkaði boð um að skera enn frekar niður þótt stjórnarandstaðan vildi styðja hana til þess að fara í þá vegferð, í stað þess að þegar búið væri að fara í ákveðna vinnu værum við gargandi hér úti í sal eða úti í samfélaginu um hvað ríkisstjórnin væri að gera. Þess vegna veldur þetta mér miklum áhyggjum og undirstrikar þær áhyggjur sem ég hef af því að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn geri sér ekki grein fyrir þeim vandamálum sem eru fram undan.

Virðulegi forseti. Það sem hefur einkennt vinnu við gerð fjárlaga fyrir árið 2010 er að sjálfsögðu allur þessi flumbrugangur og skyndiákvarðanir sem eru teknar frá degi til dags og mér liggur við að segja frá klukkutíma til klukkutíma. Hér koma menn með skattbreytingar sem eiga að umbylta öllu skattkerfi landsins þegar liðin er vika af desembermánuði en upphaflega stóð í áformum hæstv. ríkisstjórnar að það yrði gert í síðasta lagi um miðjan nóvembermánuð.

Ég vil líka benda á að þegar við vorum að klára 2. umræðu fjárlaga rétt fyrir klukkan tíu um kvöldið, höfðum verið á fundi með fulltrúum frá fjármálaráðuneytinu og vorum að klára okkar nefndarálit eftir að hafa fengið stórar breytingar á þeim tölum sem þar voru, þá var ég að fara yfir nefndarálitið okkar en fékk aldrei neinn botn í þessar tölur sem ég var nýbúinn að fá í hendurnar. Þá hafði því miður láðst að veita okkur í minni hlutanum þær upplýsingar, og það kom ekki fram á fundi fjárlaganefndar, að grunnurinn að þeim breytingum sem voru gerðar í tekjuáætlun ríkisins var að búið var að hækka landsframleiðsluna úr 1.520 milljörðum í 1.606 milljarða án þess að fyrir lægju neinar haldbærar skýringar á því inni í nefndinni. Virðulegi forseti. Ég hef stórar áhyggjur af svona vinnubrögðum og er hræddur um að því miður muni þetta leiða til þess að niðurstaðan á næsta ári verði ekki 100 milljarðar í mínus heldur enn meiri, þótt ég voni sannarlega að svo verði ekki.

Þar sem ég tel að ríkisstjórnin hafi gefist strax upp á verkefni sínu og ráði ekki við það vil ég benda á að þegar skrifað var undir stöðugleikasáttmálann til þess að brúa fjárlagagatið fyrir árið 2010 var reiknað með að það yrði gert með því að 45% yrðu skattahækkanir og 55% niðurskurður á ríkisútgjöldum. Nú er þegar búið að færa til 2% sem eiga að fara í auknar skatttekjur í staðinn fyrir niðurskurð á ríkissjóðsútgjöldum. Þessi 2% láta svo sem ekki mikið yfir sér þegar menn tala um tölur en þessi 2% þýða að það á að leggja á frekari skattálögur um 12 milljarða. Það segir kannski allt um hvernig þessi vinnubrögð eru.

Ég vil árétta enn einu sinni, virðulegi forseti, hvernig ríkisstjórnin gerir þessar ráðstafanir í ríkisfjármálum. Nú er hæstv. ríkisstjórn búin að færa 2,5 milljarða frá sveitarfélögunum í landinu beint inn í ríkiskassann án þess að bæta sveitarfélögunum það upp. Ríkið er búið að hrifsa til sín 2,5 milljarða. Ég tel sveitarfélögin í landinu ekki vera í stakk búin til að hlaupa undir bagga með ríkissjóði við þessar aðstæður. Fréttirnar undanfarna daga benda því miður til að svo sé ekki. Þess vegna er gjörsamlega óþolandi, ólíðandi og óréttlátt að ríkisvaldið taki 2,5 milljarða frá sveitarfélögunum til þess að rétta af sinn eiginn rekstur. Það undirstrikar enn frekar það máttleysi sem er í ríkisstjórninni, í stað þess að takast sjálf á við vandann ætlar hún öðrum að gera það. Þegar hrunið varð í lok ársins 2008 brugðust mörg sveitarfélög við því með mjög ábyrgum hætti. Sveitarstjórnarmenn víða um land þurftu að taka mjög erfiðar ákvarðanir og standa frammi fyrir íbúunum með þær, hvernig þeir ætluðu að ná saman rekstri sveitarfélaganna, en þegar þessi hæstv. ríkisstjórn tók við tók hún í mörgum tilfellum allar þær sparnaðaraðgerðir sem sveitarstjórnir voru búnar að fara í og hrifsaði þær til sín á einu bretti. Sveitarstjórnarmenn um land allt þurftu því að fara í enn frekari niðurskurð. Þetta sýnir hvernig ríkisstjórnin vinnur, hún getur ekki tekið til í eigin ranni heldur lætur aðra gera það.

Ég vil líka undirstrika að ríkisstjórnin gerir margt fleira en þetta. Ég tel það mjög óábyrgt að hún skilur nú margar stofnanir ríkisins eftir í fjárhagslegri gíslingu. Ég nefni sérstaklega eina stofnun sem er Landspítali – háskólasjúkrahús. Hann er núna við lok árs 2009 með 2,8 milljarða uppsafnaðan halla. Það var ekki tekið á því í fjáraukalögunum sem við samþykktum um daginn og það stendur ekki til að gera það í fjárlögunum 2010. Virðulegi forseti, þarna er ríkisstjórnin að fresta vandamálum. Ég er ekki að mæla því bót að einstaka stofnanir fari fram úr en því miður er algjörlega óábyrgt að ætla að láta Landspítala – háskólasjúkrahús fara inn í næsta ár með 6 milljarða á bakinu, þ.e. 2,8 milljarða í hallarekstri og sparnaðarkröfur upp á 3,2 milljarða. Þessir 6 milljarðar eru 20% af heildarfjárveitingu Landspítalans. Hver heilvita maður sér að þetta mun ekki ganga eftir. Landspítali – háskólasjúkrahús getur ekki skorið niður um 6 milljarða á næsta ári nema hann fái bein fyrirmæli frá hæstv. ríkisstjórn um hvar á að draga saman í þjónustunni. Það er með ólíkindum að hlusta síðan á hæstv. heilbrigðisráðherra tala um að það megi ekki segja upp fólki, það má ekki gera þetta og það má ekki gera hitt, en samt sem áður ætlar ríkisstjórnin að láta Landspítalann fara með 6 milljarða inn á næsta ár. Þetta er óraunhæft og algjörlega úr takti við allt. Þetta er enn eitt dæmið um að ríkisstjórnin horfist ekki í augu við vandamálin heldur frestar þeim. Hún stingur hausnum ofan í sandinn.

Núna er hæstv. ríkisstjórn búin að gera samning við stóriðjufyrirtækin í landinu um að fá fyrir fram greidda skatta á árunum 2010–2012, þ.e. næstu þrjú árin, upp á 3,6 milljarða. Virðulegi forseti. Ég tel að það sé ólöglegt. Algjörlega. Menn geta gert þessa samninga en þeir mega ekki tekjufæra það núna á árunum 2010, 2011 og 2012 sem þeir taka í fyrir fram greiddar álögur sem á að ganga til baka á árunum 2013–2018. Þetta er öll sýn hæstv. ríkisstjórnar. Hún ætlar að taka núna 3,6 milljarða inn í ríkissjóð sem eiga að greiðast til baka á árunum 2013–2018 þegar hún er farin frá völdum. Þetta er nú allur manndómurinn í því hvernig hún tekur á hlutunum. Þetta er algjörlega með ólíkindum og í raun og veru bókhaldslega ekki hægt, vegna þess að þetta hefur áhrif á efnahaginn og streymi fjármagns. Þú minnkar ekki rekstrarhallann með þessum hætti. Þetta er enn eitt dæmið um að hæstv. ríkisstjórn stundar barbabrellur.

Við þessi fjárlög skerðir ríkisstjórnin tvær sjúkrastofnanir á landsbyggðinni miklu meira en aðrar. Það eru Heilbrigðisstofnunin Blönduósi um 10,1% og Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki um 9% en þetta er langt umfram allar aðrar heilbrigðisstofnanir. Á sama tíma eykur þessi svokallaða velferðarstjórn útgjöld á aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins um 8,4%. Þetta eru skýr skilaboð frá hæstv. ríkisstjórn: auðvitað skal skera niður á landsbyggðinni og láta sjúklingana þar og íbúana blæða en auka skrifstofuveldið hér í Reykjavík. Til þess að árétta vitleysuna í kringum þetta, virðulegi forseti, sem ég bar nú mikla von um að yrði leiðrétt milli 2. og 3. umr., er búið að færa verkefni frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneyti fyrir sennilega 15 milljarða. Það er búið að draga hluta af því til baka en ætli það séu ekki 15 milljarðar í dag, ég giska á það en þori ekki að fullyrða um það. Samt sem áður er verið að auka útgjöld aðalskrifstofunnar um 8,4%. Þetta er með ólíkindum og skýr skilaboð til íbúa landsbyggðarinnar frá þessari ríkisstjórn.

Eitt enn dæmið um hvernig ríkisstjórnin færir til vandamál og hugsar ekki hlutina til enda er að nú er skorið mjög niður hjá SÁÁ. Hvað gerist við það, virðulegi forseti? Það sem gerist er að menn færa vandamálin til. Áfengissjúklingarnir hætta því miður ekki að vera til og áfengisvandamálið hverfur ekki. Þetta vandamál færist núna inn á heilbrigðisstofnanirnar og til fangelsanna. Þetta eru miklu dýrari úrræði, fyrir utan að ef hægt er að hjálpa mönnum sem lenda í áfengisóreglu mun það að sjálfsögðu frelsa margar fjölskyldurnar úr þeirri ánauð.

Til viðbótar þessu er skorið niður núna hjá Breiðafjarðarferjunni Baldri um 14%. Það er verið að fækka um eina ferð í viku. Á meðan er gerð krafa á Vegagerðina um að hún skeri niður um 10%. Eftir allt það sem hefur gerst í vegamálum í Barðastrandarsýslu sýnir þetta enn skilningsleysi hæstv. ríkisstjórnar á því hversu mikilvæg samgönguleið þetta er fyrir suðurhluta Vestfjarða. Þetta eru enn ein skilaboðin um að það skuli skera niður á landsbyggðinni. Auk þess sker hæstv. ríkisstjórn niðurgreiðslur á húshitun niður um 130 milljónir á sama tíma og búið er að hækka rafmagnsverð á þessu ári um 20%. Nú er orðið 336% dýrara að kynda húsnæði úti á landsbyggðinni á köldum svæðum heldur en hér á höfuðborgarsvæðinu. Síðan get ég nefnt til viðbótar að verið er að lækka niðurgreiðslur á námskostnaði þannig að það stefnir allt í sömu átt hjá þessari hæstv. ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Nú er tími minn því miður liðinn (Forseti hringir.) og ég vil biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.