138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:23]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef í raun áhyggjur af þeim niðurskurði sem við verðum að taka hvort sem okkur líkar betur eða verr og nú fellur það í hlutverk þessarar ríkisstjórnar að brúa þá miklu gjá sem er í ríkisrekstrinum. Við gerum það m.a. með því að fara bæði í skattlagningu og að draga úr útgjöldum. Það er mjög mikill tilflutningur frá sveitarfélögunum en það stendur nú til að styðja þau frekar. Ég tel mjög mikilvægt í öllum þessum niðurskurði og sérstaklega í velferðarþjónustunni að við fylgjumst mjög vel með framgangi mála, hvort niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni færist yfir í félagsþjónustuna, hvaða áhrif það hefur. Þess vegna tel ég að ábyrgð fjárlaganefndar (Forseti hringir.) Alþingis og viðkomandi nefnda sé mjög mikil á komandi ári að fylgjast með framþróuninni.