138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:26]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sannarlega hefði ég viljað það að við hefðum getað unnið betur saman, ég tala nú ekki um þegar við horfum til baka og horfum til ábyrgðar okkar allra hér inni, sérstaklega þeirra sem hafa setið við stjórnvölinn og eiga þátt í þessu hruni.

Hvað varðar það að skattleggja lífeyrissparnaðinn, um það verður auðvitað að vera einhvers konar pólitísk sátt að byrja á því á þessu ári. Það verða erfið ár fram undan, hugsanlega verður þetta eitthvað sem við munum þá líta til á næsta ári. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi telur að betra sé að fara þá leið sem lögð hefur verið til, en við eigum þó þetta neyðarúrræði inni, því að auðvitað er þetta svona svolítið að pissa í skóinn sinn að taka þetta fyrir fram. Þó að við vonum það besta og ætlum okkur að koma okkur út úr þessum erfiðleikum núna á tiltölulega skömmum tíma, tveim, þrem árum, er ekki þar með sagt (Forseti hringir.) að við ráðum því alveg til lengri tíma litið.