138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem hún fór vel yfir málaflokk sem hún þekkir vel. Hv. þingmaður ræddi einmitt mikið um þessa tilfærslu á milli ráðuneyta. Ég er með nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi, af því við upplifðum hvað þetta voru gríðarlega ófagleg vinnubrögð, hvort hv. þingmaður hafi einhverjar skýringar á því.

Í öðru lagi, af því að fram kemur í minnisblaðinu að nú eigi að bjarga einhverju fyrir horn og setja þá sem yngri eru aftur til heilbrigðisráðuneytisins, þá er samt sem áður gert ráð fyrir að geðrými á Ási í Hveragerði verði í félagsmálaráðuneytinu og sömuleiðis rekstur dagvistar fyrir MS-félagið, sem er fyrir alla aldurshópa. Að vísu er Ás fyrir eldra fólk en það er geðrými, ekki nokkur spurning að það er heilbrigðismál.

Síðan að spyrja kannski um … (Forseti hringir.) Virðulegur forseti. Það er mjög erfitt að koma henni að hérna á einni mínútu. Ég held að virðulegi forseti þurfi að gera eitthvað í þessu, en ég hef alla vega þessar tvær spurningar til að byrja með.