138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún fjallaði mikið um hjúkrunarrými og annað slíkt en hún kom ekkert inn á stóru þættina sem er skorturinn á upplýsingum úr fjárlagafrumvarpinu, sérstaklega varðandi Icesave. Bara vextirnir af Icesave á þessu ári svara til eins háskólasjúkrahúss. Allt sem hv. þingmaður sagði er hjóm eitt við hliðina á þeirri skuldbindingu sem hv. meiri hluti ætlar að taka yfir án þess að hafa neinar tryggingar eins og gert var ráð fyrir í sumar. Þá voru tryggingar fyrir þjóðina en nú eru engar tryggingar lengur, þær eru farnar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig henni hugnist það að vera með 45 milljarða í skuldbindingu og 100 milljónir í gengisáhættu á þessu ári við hliðina á þeim vandamálum sem hún er að horfa á.